Í sumar verða liðin þrjú ár frá því að lögum um fjöleignarhús var breytt til að liðka fyrir rafbílavæðingu. Af því tilefni efndi Eignaumsjón til hádegisfundar um rafbíla og fjöleignarhús á fimmtudaginn í liðinni viku, 9. febrúar 2023. Um sextíu boðsgestir sátu fundinn, hátt í fimmtíu fylgdust með honum í streymi og vel á annað hundrað horfðu á streymið eftir fundinn.
Til fundarins var boðið formönnum og stjórnum húsfélaga sem eru í þjónustu hjá Eignaumsjón en fyrirkomulag hleðslu rafbíla í fjöleignarhúsum, bæði gömlum og nýjum, er meðal verkefna sem stjórnir margra húsfélaga standa frammi fyrir.
Fákeppnismarkaður sem er enn í mótun
Fram kom í erindi Tómasar Kristjánssonar, formanns Rafbílasambands Íslands að breytingarnar á fjöleignarhúsalögunum og auðvelduðu til muna ákvarðanatöku um uppbyggingu hleðslukerfa hefðu ýtt undir fjölgun rafbíla. Markaður í kringum hleðslukerfi rafbíla á Íslandi er enn í mótun sagði Tómas og hann beri yfirbragð fákeppni í dag, m.a. sé verðlag milli aðila oft ósanngjarnt. Þá sagði hann skorta á fræðslu sveitarfélaga og í einhverjum tilfellum aðgerðir, þar sem fjölmörg fjöleignarhús eiga ekki lóðir eða bílastæði svo unnt sé að koma upp hleðslustöðvum.
Tómas kvaðst þó bjartsýnn á að samkeppni muni aukast eftir því sem rafbílum fjölgi og það muni stuðla að bættum hag bæði rafbílaeigenda og húsfélaga.
Mikilvægt að vanda ákvarðanatöku
Páll Þór Ármann, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar, lagði áherslu á að hleðslukerfi rafbíla í fjöleignarhúsum er hluti af sameiginlegu kerfi hússins – og þar með á ábyrgð húsfélagsins. Hann áréttaði jafnframt að við grunnhönnun nýbygginga væri fylgt eftir kröfum um útfærslu rafhleðslukerfa, þau væru í raun eitt af grunnkerfum húsa, ekki ósvipað öðrum raforku- eða hitakerfum.
Mikilvægt er að húsfélög vandi alla ákvarðanatöku varðandi uppsetningu hleðslukerfis rafbíla. Þjónustuferlið (sjá mynd) sem er í boði hjá Eignaumsjón vegna rafhleðslu í fjöleignarhúsum er í fyrsta lagi hlutlaus úttekt, eins og lög mæla fyrir um. Henni er fylgt eftir með verðsamanburði sambærilegra kerfa og/eða öflun tilboða fyrir húsfélög sem þess óska, ásamt tilboði um tryggan og óþvingaðan rekstur til framtíðar, sem húsfundur viðkomandi félags tekur til afgreiðslu og ákvörðunar.
Pall áréttaði líka mikilvægi þess að ramma inn rekstur og sjálfvirka innheimtu hleðslukerfa frá upphafi og tryggja þannig að endurgreiðsla vegna notkunar rafmagns skili sér til rétta viðtakenda. Benti hann á að þar gæti flækjustig á stundum verið mikið, oftast er húsfélagið með heimtaugina og þá tenginguna við rafhleðslukerfið en stundum einstakir stigagangar. Eins verði að tryggja rétt skil ef búnaðarsali innheimtir notkunina.
Eignaumsjón býður sjálfvirkan álestur og innheimtu úr flestum hleðslukerfum
Á fundinum kom einnig fram að til að aðstoða húsfélög við rekstur og umsjón rafhleðslukerfa býður Eingumsjón nú upp á sjálfvirkan álestur og innheimtu úr flestum hleðslukerfum sem eru í notkun hérlendis, s.s. Faradice, Hleðsluvaktinni, Ískraft(EO), Ísokru, N1 og fleirum. Í húsfélögum sem eru í húsfélagsþjónustu hjá Eignaumsjón er raforkunotkun viðkomandi innheimt með húsgjöldunum, sem sparar greiðslumiðlunarkostnað. Jafnframt sinnir Eignaumsjón, í samstarfi við rafverktaka, umsjón og eftirliti með rekstri hleðslukerfa.
Þá kom fram að rafhleðslukerfi eykur virði fasteigna og bent var á að nú, þegar Eignaumsjón gefur út húsfélagsyfirlýsingar vegna sölu íbúða, er líka upplýst hvert fyrirkomulag rafhleðslu er í viðkomandi húsfélagi.
Höfum gengið til góðs
Leifur Eysteinsson, varamaður í stjórn lóðar- og bíalgeymslufélags Álalindar 14-16 í Kópavogi, lýsti reynslu félagsins við ákvörðun um kaup á rafhleðslukerfi og innleiðingu fyrir nokkrum árum, sem og glímu við verktaka um skil og heimtaugar. Kom fram hjá honum að ef upplýsingarnar sem kynntar voru fyrr á fundinum hefðu legið fyrir þegar hann var að glíma við þessi mál, hefði baráttan verið til muna auðveldari!
Að loknum framsöguerindum svöruðu Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar, og Bjarni Gnýr Hjarðar, sérfræðingur Eignaumsjónar í rafbílahleðslumálum, fyrirspurnum.
Erindi Tómasar Kristjánssonar, formanns Rafbílasambands Íslands má nálgast hér
Erindi Páls Þórs Ármanns, forstöðumanns þjónustusviðs Eignaumsjónar, má nálgast hér
Erindi Leifs Eysteinssonar, varafulltrúa í stjórn lóðar- og bílageymslufélags Álalindar 14-16, er hér
Upptöku frá fundinum í heild má nálgast hér