Stóraukin reiðhjólaeign og almennari notkun þeirra allt árið um kring kallar gjarnan á skýrari reglur í fjölbýlishúsum um hvernig haga skuli geymslu og frágangi hjóla, bæði í og á sameign viðkomandi húsfélags.
Fjöleignarhúsalögin gera ráð fyrir því að húsreglur séu settar í fjölbýlishúsum. Samkvæmt lögunum hvílir sú skylda á stjórn húsfélags að leggja fyrir húsfund til samþykktar reglur um hagnýtingu sameignar og séreignar, að því marki sem lögin leyfa. Jafnframt hvílir sú skylda á öllum íbúum að virða húsreglurnar, hvort sem þeir eru eigendur eða leigjendur.
Sameign ekki geymslusvæði
Áréttað skal að sameignargangar eru ætlaðir til umgangs að og frá íbúðum og lögum samkvæmt er óheimilt að nota þá sem leiksvæði, eða geymslu fyrir muni eða rusl.
Í húsreglum er jafnan kveðið á um að ekki megi skilja eftir reiðhjól, eða annað sem valdið geti truflun á aðkomu og umferð, fyrir útidyrum eða á gangvegum hússins. Þá er gjarnan líka hnykkt á því að óheimilt sé að geyma muni eins og reiðhjól, barnavagna, skófatnað eða annað það sem getur valdið þrengslum, óþrifnaði eða óprýði í sameign húsfélagsins.
Misgóð umgengni
Yfirleitt eru sérstakar hjóla- og vagnageymslur í fjölbýlishúsum sem hjólaeigendur í húsinu geta samnýtt en eins og gengur og gerist er umgengni um þessar geymslur mismunandi.
Víða er allur frágangur til fyrirmyndar og jafnvel búið að koma upp hjólagrindum til að auðvelda umgengni og þrif, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem húsumsjónarmenn okkar tóku á dögunum í húsfélagi sem nýtir reglubundna umsjónar- og eftirlitsþjónustu Eignaumsjónar.
Því miður eru auðvitað líka mörg dæmi um að í hjólageymslum ægi saman ómerktum eða ónýtum hjólum og allskyns örðu dóti þannig að þær nýtast engum og þarf þá húsfélagið að grípa til úrbóta.
Til þjónustu reiðubúin
Við hjá Eignaumsjón erum að sjálfsögðu tilbúin að aðstoða húsfélög sem þurfa aðstoð við að setja húsreglur, s.s. vegna umgengni í sameign varðandi hjól og aðra muni, eða gera aðrar þær ráðstafanir sem þarf til að koma skikki á þessi mál. Síminn í þjónustuverinu okkar er 585-4800, netfangið er thjonusta@eignaumsjon.is og einnig er hægt að hafa samband í netspjalli á heimasíðu okkar; eignaumsjon.is.