Eignaumsjón kom nýlega að stofnun og rekstri húsfélags fyrir stórglæsilegt fjölbýlishús með 64 íbúðum og 5 atvinnurýmum við Borgartún 24a-g í Reykjavík.
Þegar er flutt inn í hluta íbúðanna í húsinu, sem er sannkallað kennileiti í hjarta borgarinnar með sínum ávölu línum og glæstum inngarði, sem markar skil á milli íbúðahlutans og atvinnustarfseminnar á jarðhæðinni og er að því er við best vitum nýjung í hönnun fjöleignarhúsa hérlendis.
Gengið er upp tröppur til að komast í inngarðinn á annarri hæði hússins þar sem eru bæði sérafnotareitir og inngangar fyrir íbúa, jafnframt því sem gert er ráð fyrir umferð bæði gangandi vegfarenda og íbúa um garðinn.
Deildaskipt heildarhúsfélag góður kostur í fjölþættum húsum
„Það fór best á því að okkar mati að stofna þarna deildaskipt heildarhúsfélag,“ segir Hallur Guðjónsson hjá sölu- og samskiptum hjá Eignaumsjón. „Þarna er eitt hús með sjö séreignarhlutum; fimm verslunarrýmum á jarðhæð og tveimur stigagöngum með íbúðum, ásamt bílakjallara með stæðum sem fylgja hluta íbúðanna og bílastæðum á lóð sem aðrir íbúar geta samnýtt með verslunarrýmunum.“
„Það er reynsla okkar að deildaskipt heildarfélag í stærri fjöleignarhúsum skapar aukna samstöðu og samheldni, tryggir betra jafnvægi í rekstri til lengri tíma, tryggir samræmt utanumhald eigna og auðveldar hagræðingu, bæði í innheimtu, öflun þjónustu og fleiru. Stjórnun húsfélagsins verður líka styrkari með eina stjórn, í stað þess að mörg rekstrarfélög og margar stjórnir komi að málum,“ bætir Hallur við.