Apr 7, 2025 | Fréttir
„Til skamms tíma hefur verið vöntun á þrifaþjónustu fyrir djúpgáma en nokkur fyrirtæki eru farin að bjóða upp á slík þrif og því getum við hjá Eignaumsjón nú aðstoðað húsfélög við að fá tilboð í að þrífa þessi risastóru sorpílát,“ segir Guðmundur Orri Arnarson, umsjónarmaður fasteigna hjá Eignaumsjón.
Djúpgámarnir eru nýjung í sorphirðu sem er að ryðja sér til rúms hérlendis, sérstaklega í nýjum og nýlegum fjölbýlishúsum og miðað við þann vöxt sem hefur verið í byggingu fjölbýlishúsa og fjölda djúpgáma sem settir eru niður á hverju ári blasir við að þessi þrifaþjónusta verði nauðsynlegur hluti af rekstri húsfélaga í framtíðinni.
Segja má að djúpgámar séu neðanjarðarsorpgeymslur sem komið er fyrir utan við fjölbýlishús og oftar en ekki eru þeir læstir, þannig að aðrir en íbúar viðkomandi húss geta ekki hent rusli í þá. Djúpgámarnir eru að jafnaði 3-5 rúmmetrar að stærð og eru þeir losaðir með þar til gerðum sorpbílum. Tíðni losanna fylgir sorphirðudagatali viðkomandi sveitarfélags og algengast er, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, að flokkunarlínur djúpgáma fjölbýlishúsa séu lífrænn úrgangur, blandað sorp, pappi og plast.
„Töluvert hefur verið um að íbúar í húsfélögum kvarti um ólykt, flugur og óþrifnað í kringum djúpgáma en erfitt hefur verið að útvega þrif, svipað og gert er með sorptunnur einu sinni til tvisvar á ári,“ segir Orri og bætir við að hann sé sannfærður um að djúpgámaþrifin séu komin til að vera, hvort sem húsfélög velja að þrífa sína djúpgáma einu sinni eða tvisvar á ári.
„Við hjá Eignaumsjón getum aðstoðað húsfélög sem eru í leit að þrifum á djúpgámum, sem og hverskyns annarri þjónustu. Heyrið bara í þjónustuverinu okkar – í síma 585-4800, í netspjalli á www.eignaumsjon.is eða með því að senda tölvupóst á thjonusta@eignaumsjon.is – og láttu okkur hjálpa þínu húsfélagi.“
Aug 14, 2023 | Fréttir
Dreifingu á nýjum tunnum fyrir sorphirðu lauk í síðustu viku í Vesturbæ og miðborg Reykjavíkur. Í framhaldinu hófst tunnudreifing í borgarhluta 4, Laugardal, sem er norðan Suðurlandsbrautar allt frá Snorrabraut í vestri að Elliðaám í austri. Búist er við að dreifing þar taki allt að tvær vikur og verði lokið um miðja næstu viku. Þá verður hafist handa við tunnuskipti í síðasta borgarhlutanum, Háaleiti-Bústöðum. Gert er ráð fyrir að dreifingunni þar ljúki í byrjun september. Þar með lýkur tunnuskiptum í Reykjavík vegna innleiðingar nýs og samræmds flokkunarkerfis úrgangs, um mánuði á undan áætlun en dreifingin hófst á Kjalarnesi í byrjun maí.
Skylt varð að flokka heimilisúrgang í fjóra flokka við húsvegg hjá heimilum með lögum um hringrásarhagkerfi, sem tóku gildi í janúar 2023. Þessir flokkar eru matarleifar/lífrænn úrgangur, pappír og pappi, plastumbúðir og blandaður úrgangur.
Tunnum er úthlutað samkvæmt gerð húsnæðis og fjölda íbúa og meginmarkmiðið er að fjölga tunnum hjá íbúum eins lítið og hægt er. Öll heimili fá jafnframt körfu og bréfpoka undir matarleifar sem dreift er samhliða tunnuskiptunum.
Nýjum sorphirðubílum fjölgað í borginn
Áætlun sorphirðu með blandaðan úrgang og matarleifar er á áætlun í höfuðborginni en umtalsverðar tafir hafa verið í hirðu á pappír og plasti undanfarnar vikur. Vonir standa til að nú fari að rætast úr í þeim efnum.
Þrír nýir sorphirðubílar voru teknir í gangið í dag, mánudaginn 14. ágúst. Til að byrja með verður lögð áhersla á að vinna upp þær tafir sem orðið hafa í austurhluta borgarinnar, í Árbæ, Grafarholti og Grafarvogi. Sjá nánar hér.
Jun 28, 2023 | Fréttir
Breytingar hafa verið gerðar á dreifingaráætlun Reykjavíkur vegna innleiðingar nýs og samræmds flokkunarkerfis úrgangs. Þegar dreifingu í Breiðholti lýkur í byrjun næsta mánaðar verður í framhaldinu farið í dreifingu í Vesturbænum og miðborginni. Standa vonir til að dreifingu þar verði lokið fljótlega eftir verslunarmannahelgi.
Breytingarnar eru gerðar til að nýta sem best tímann til dreifingar í áðurnefndum hverfum þegar minnst umferð er í borginni vegna sumarfría og áður en kennsla í skólum hefst. Af þessum sökum færist tunnudreifing í Hlíðum og Laugardal fram í ágúst og dreifingunni lýkur í Háaleiti- Bústöðum í septembermánuði.
Að jafnaði er tunnum dreift til um 650 heimila á dag og er þegar búið að dreifa nýjum tunnum, körfum og pokum til rúmlega 14.500 heimila í borginni. Það telst vera rúmlega fjórðungur þeirra 55.000 heimila í borginni sem Sorphirða Reykjavíkur þjónustar.
Sjá nánar hér.
May 19, 2023 | Fréttir
Innleiðing á samræmdu flokkunarkerfi sorphirðu hófst í Reykjavík í þessum mánuði . Þegar er búið að afhenda nýjar tunnur á Kjalarnesi, tunnuskiptum í Grafarholti og Grafarvogi á að ljúka fyrir mánaðamót og fyrir septemberlok á tunnuskiptum að vera lokið í höfuðborginni.
Skylt varð að flokka heimilisúrgang í fjóra flokka við heimili með lögum um hringrásarhagkerfi, sem tóku gildi í janúar 2023. Þetta er stórt umhverfismál en með réttri flokkun er hægt að minnka sóun og endurnýta verðmæti í stað þess að þeim sé hent. Flokkarnir fjórir eru;pappír og pappi, plastumbúðir, matarleifar og blandaður úrgangur.
Hvenær verður tunnunum skipt út?
- Kjalarnes, Grafarvogur, Grafarholt og Úlfarsárdalur fá nýjar tunnur í maí
- Árbær og Breiðholt fá nýjar tunnur í júní
- Háaleiti og Bústaðir fá nýjar tunnur í júní og júlí
- Laugardalur fær nýjar tunnur í júlí
- Miðborg og Hlíðar fá nýjar tunnur í ágúst
- Vesturbær fær nýjar tunnur í september
Útfærslur í fjölbýlum
Meginmarkmiðið er að fjölga tunnum eins lítið og hægt er. Í stærri fjölbýlum verða ekki notaðar tvískiptar tunnur heldur eingöngu heilar tunnur. Gráum tunnum fyrir blandaðan úrgang verður fækkað og þeim skipt út fyrir tunnur undir endurvinnsluefni. Í litlum fjölbýlum með þremur eða færri íbúum verða notaðar tvískiptar tunnur fyrir blandaðan úrgang og matarleifar og bláar og grænar tunnur fyrir plast og pappír. Þegar útskiptingu er lokið eiga að vera tunnur undir fjóra flokka við öll hús.
Húsfélög eiga ekki að þurfa að grípa til neinna aðgerða hvað varðar tunnuskipti en ef reisa þarf sorpgerði eða -skýli á lóð fjöleignarhúsa þarf að sækja um byggingarleyfi hjá byggingarfulltrúa.
Hverju verður dreift til heimila?
Körfur, pokar til söfnunar á matarleifum og útskýringarbæklingar á nýju kerfi verða í anddyri fjölbýlishúsa ásamt veggspjaldi sem útskýrir að hver íbúi eigi að taka körfur og poka.
Tunnur tæmdar oftar
Samhliða þessum breytingum verða tunnurnar tæmdar oftar. Tunnur undir pappír og plast verða tæmdar á tveggja vikna fresti eftir breytingarnar en hirðutíðnin hefur verið þrjár vikur.
Allar frekari upplýsingar um nýtt flokkunarkerfi og söfnun á matarleifum er að finna á vef Sorpu; www.flokkum.is. Frekari upplýsingar um dreifingu á tunnum má nálgast hjá þjónustuveri borgarinnar í síma 411 1111, á upplysingar@reykjavik.is og á www.reykjavik.is/flokkum.
Nov 16, 2022 | Fréttir
Reykjavíkurborg ætlar að hefja innleiðingu breyttrar sorphirðu í maí á næsta ári og á henni að vera lokið í október. Nú standa yfir útboð hjá Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu vegna fyrirhugaðra tunnuskipta og annarra breytinga sem fara þarf í til að mæta ákvæðum nýrra laga um hringrásarhagkerfi, sem Alþingi samþykkti árið 2021 og taka þau gildi nú um áramótin.
Lögin kveða m.a. á um að skylt verði að safna við heimili lífrænum eldhúsúrgangi, til viðbótar við söfnun á plasti, pappír/pappa og almennu sorpi. Samhliða gildistöku laganna verður líka öll flokkun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu samræmd.
Á kynningarfundi fyrir formenn og stjórnir húsfélaga, sem Eignaumsjón stóð fyrir í liðinni viku með fulltrúum frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, SORPU og Reykjavíkurborg, kom fram að innleiðingin í Reykjavík muni fara fram samkvæmt ákveðinni forskrift um fjölda íláta sem þarf við hvert hús miðað við fjölda íbúa. Tunnuskiptin byrja í maí á næsta ári þegar verktakar á vegum borgarinnar byrja að fara í hvern borgarhluta á fætur öðrum til að skipta út ílátum og endurnýja úr sér gengin ílát ef þarf. Borgarhlutarnir eru níu talsins og er gert er ráð fyrir að tunnuskiptin taki að jafnaði þrjár vikur í hverjum borgarhluta og þeim að vera lokið í október.
Sorplosun á tveggja vikna fresti
Strax að loknum tunnuskiptum í hverjum borgarhluta tekur nýja sorphirðukerfið gildi með vikulegri losun. Aðra vikuna verður hirt almennt sorp og lífrænn úrgangur en hina vikuna pappír/pappi og plast.
Nýju tunnunum fylgja jafnframt þar til gerðar körfur til að hafa innanhúss undir bréfpoka fyrir lífrænan úrgang. Bréfpokunum verður svo safnað í lífrænu tunnuna. Fram kom á kynningarfundinum að fyrst um sinn verði bréfpokarnir afhentir íbúum ókeypis.
Allmörg húsfélög í Reykjavík hafa komið sér upp djúpgámum og kom fram á fundinum að lítið mál yrði að aðlaga djúpgámana að nýja flokkunarkerfinu. Frá upphafi hafi verið gerð krafa um fimm flokkunarlínur fyrir djúpgáma í borginni og því þurfi einungis að breyta merkingum á þeim , til samræmis við nýjar flokkunarkröfur.
Sorpgeymslan og sporrennan
Margir hafa áhyggjur af takmörkuðu rými í sorpgeymslum með tilkomu lífrænu tunnunnar en bent var á það á fundinum að aukin flokkun og skil á grenndarstöðvar ætti að draga úr þörf fyrir almennar sorptunnur. Jafnframt verður boðið upp á fleiri stærðir á gráum tunnum fyrir almennt sorp. Þar á meðal er nýtt 370 lítra ílát, sem er tæplega þriðjungi stærra en venjuleg grá tunna sem tekur 240 lítra og töluvert minna um sig en stóru 660 lítra sorpkerin.
Á fundinum kom líka fram að það sé á valdi húsfélaga þar sem er sorprenna að ákveða hvort henni verði lokað eða hún notuð áfram. Ef sorprennan verði áfram í notkun fari best á því að vera með gráa tunnu fyrir almennt sorp undir rennunni, ekki lífrænu tunnuna.
Almennt er horft til þess hjá Reykjavíkurborg að íbúar og húsfélög þurfi að gera sem minnst vegna innleiðingar nýja sorphirðukerfisins. Voru stjórnir húsfélaga hvattar til þess að láta reyna á nýja kerfið áður en farið væri að huga að breytingum. Þar sem ekki yrði komist hjá því að breyta sorpgeymslum eða koma upp nýrri aðstöðu þyrfti byggingarleyfi og voru þeir sem teldu vera þörf á breytingum hvattir til að hafa samband við borgina á netfanginu sorphirda@reykjavik.is.
Gjaldskrá hvetji til sorpflokkunar
Loks skal nefnt að fram kom á fundinum að gjaldskrá vegna sorphirðu verði notuð sem „hvati til að auka sorpflokkun“. Gjöldin muni lækka hjá þeim sem eru duglegir að flokka en gjöld vegna óflokkaðs sorps – „sóðatunnunnar“ – muni hækka en ekki liggur enn fyrir hve mikil hækkun verður.