Dreifingu á nýjum tunnum fyrir sorphirðu lauk í síðustu viku í Vesturbæ og miðborg Reykjavíkur. Í framhaldinu hófst tunnudreifing í borgarhluta 4, Laugardal, sem er norðan Suðurlandsbrautar allt frá Snorrabraut í vestri að Elliðaám í austri. Búist er við að dreifing þar taki allt að tvær vikur og verði lokið um miðja næstu viku. Þá verður hafist handa við tunnuskipti í síðasta borgarhlutanum, Háaleiti-Bústöðum. Gert er ráð fyrir að dreifingunni þar ljúki í byrjun september. Þar með lýkur tunnuskiptum í Reykjavík vegna innleiðingar nýs og samræmds flokkunarkerfis úrgangs, um mánuði á undan áætlun en dreifingin hófst á Kjalarnesi í byrjun maí.
Skylt varð að flokka heimilisúrgang í fjóra flokka við húsvegg hjá heimilum með lögum um hringrásarhagkerfi, sem tóku gildi í janúar 2023. Þessir flokkar eru matarleifar/lífrænn úrgangur, pappír og pappi, plastumbúðir og blandaður úrgangur.
Tunnum er úthlutað samkvæmt gerð húsnæðis og fjölda íbúa og meginmarkmiðið er að fjölga tunnum hjá íbúum eins lítið og hægt er. Öll heimili fá jafnframt körfu og bréfpoka undir matarleifar sem dreift er samhliða tunnuskiptunum.
Nýjum sorphirðubílum fjölgað í borginn
Áætlun sorphirðu með blandaðan úrgang og matarleifar er á áætlun í höfuðborginni en umtalsverðar tafir hafa verið í hirðu á pappír og plasti undanfarnar vikur. Vonir standa til að nú fari að rætast úr í þeim efnum.
Þrír nýir sorphirðubílar voru teknir í gangið í dag, mánudaginn 14. ágúst. Til að byrja með verður lögð áhersla á að vinna upp þær tafir sem orðið hafa í austurhluta borgarinnar, í Árbæ, Grafarholti og Grafarvogi. Sjá nánar hér.