Innleiðing á samræmdu flokkunarkerfi sorphirðu hófst í Reykjavík í þessum mánuði . Þegar er búið að afhenda nýjar tunnur á Kjalarnesi, tunnuskiptum í Grafarholti og Grafarvogi á að ljúka fyrir mánaðamót og fyrir septemberlok á tunnuskiptum að vera lokið í höfuðborginni.
Skylt varð að flokka heimilisúrgang í fjóra flokka við heimili með lögum um hringrásarhagkerfi, sem tóku gildi í janúar 2023. Þetta er stórt umhverfismál en með réttri flokkun er hægt að minnka sóun og endurnýta verðmæti í stað þess að þeim sé hent. Flokkarnir fjórir eru;pappír og pappi, plastumbúðir, matarleifar og blandaður úrgangur.
Hvenær verður tunnunum skipt út?
- Kjalarnes, Grafarvogur, Grafarholt og Úlfarsárdalur fá nýjar tunnur í maí
- Árbær og Breiðholt fá nýjar tunnur í júní
- Háaleiti og Bústaðir fá nýjar tunnur í júní og júlí
- Laugardalur fær nýjar tunnur í júlí
- Miðborg og Hlíðar fá nýjar tunnur í ágúst
- Vesturbær fær nýjar tunnur í september
Útfærslur í fjölbýlum
Meginmarkmiðið er að fjölga tunnum eins lítið og hægt er. Í stærri fjölbýlum verða ekki notaðar tvískiptar tunnur heldur eingöngu heilar tunnur. Gráum tunnum fyrir blandaðan úrgang verður fækkað og þeim skipt út fyrir tunnur undir endurvinnsluefni. Í litlum fjölbýlum með þremur eða færri íbúum verða notaðar tvískiptar tunnur fyrir blandaðan úrgang og matarleifar og bláar og grænar tunnur fyrir plast og pappír. Þegar útskiptingu er lokið eiga að vera tunnur undir fjóra flokka við öll hús.
Húsfélög eiga ekki að þurfa að grípa til neinna aðgerða hvað varðar tunnuskipti en ef reisa þarf sorpgerði eða -skýli á lóð fjöleignarhúsa þarf að sækja um byggingarleyfi hjá byggingarfulltrúa.
Hverju verður dreift til heimila?
Körfur, pokar til söfnunar á matarleifum og útskýringarbæklingar á nýju kerfi verða í anddyri fjölbýlishúsa ásamt veggspjaldi sem útskýrir að hver íbúi eigi að taka körfur og poka.
Tunnur tæmdar oftar
Samhliða þessum breytingum verða tunnurnar tæmdar oftar. Tunnur undir pappír og plast verða tæmdar á tveggja vikna fresti eftir breytingarnar en hirðutíðnin hefur verið þrjár vikur.
Allar frekari upplýsingar um nýtt flokkunarkerfi og söfnun á matarleifum er að finna á vef Sorpu; www.flokkum.is. Frekari upplýsingar um dreifingu á tunnum má nálgast hjá þjónustuveri borgarinnar í síma 411 1111, á upplysingar@reykjavik.is og á www.reykjavik.is/flokkum.