
Fagleg úttekt á öryggiskerfum í fjölbýlishúsum og bílageymslum
Töluvert er um að húsfélög leiti til Eignaumsjónar um aðstoð við umsjón og rekstur öryggiskerfa, bæði í fjölbýlishúsum og bílageymslum, en mikil aukning hefur verið á undanförnum árum í uppsetningu slíkra kerfa.
„Við höfum undanfarið ár boðið upp á sérþjónustu sem við köllum Eignavakt,“ segir Bjarni G. Hjarðar, sérfræðingur á þróunarsviði Eignaumsjónar. Hann er menntaður byggingar- og umhverfisverkfræðingur og ber hitann og þungann af þessari vinnu.
Öryggisúttekt og verðkönnun
„Fyrsta skrefið í öryggisúttekt okkar er að skoða viðkomandi fasteign í samráði við stjórn húsfélags og útbúa skýrslu með tillögu að viðkomandi kerfi, megi það vera aðgangsstýring, öryggismyndavélar eða bílnúmeragreining“, segir Bjarni.
Með skýrslunni fylgir tillaga að verk- og kostnaðaráætlun sem kynnt er stjórn húsfélagsins samhliða skýrslunni, ásamt áhættugreiningu viðkomandi fasteignar og tillögum til úrbóta.
„Næsta skref er að gera verðkönnun meðal þjónustuaðila í viðkomandi kerfi, í samræmi við þá tillögu sem stjórn samþykkir. Þar leggjum við allt kapp á að tilboðslýsingin sé þannig úr garði gerð að engin vandkvæði séu á að bera tilboðin saman,“ segir Bjarni og áréttar að minnisblaði með yfirliti og ráðleggingum er skilað til stjórnar húsfélagsins fyrir ákvörðunartöku.
Uppsetning og eftirlit
Eignaumsjón getur einnig séð um eftirlit með uppsetningu öryggiskerfa fyrir hönd húsfélaga, m.a. til að tryggja að uppsetning kerfis sé í samræmi við samþykkt tilboð með tilliti til efnis, vinnu og virkni kerfisins. Fylgst er með framvindu verks og skilamat, þ.m.t. prófanir á virkni kerfa, er sent stjórn húsfélags sem forsenda samþykktar á reikningum. Reynslan sýnir að við flóknari verk er skynsamlegt fyrir stjórnir húsfélaga að kaupa óháðan aðila til verkeftirlits.
Rekstur og persónuvernd
„Við tökum einnig að okkur rekstur, umsjón og umsýslu öryggiskerfa í umboði hússtjórna í fjölbýlishúsum, sem felur í sér eftirlit með stöðu og virkni kerfa í rauntíma,“ segir Bjarni.
Innheimt er fyrir þjónustuna með húsgjöldunum, sem lækkar kostnað og tryggir að sá greiði sem notar! Örugg meðhöndlun og varðveisla gagna er líka tryggð, sem og rétt skráning rétthafa.
„Þetta fyrirkomulag er að reynast vel og bæði íbúar og notendur hafa aðgang að þjónustuveri okkar á skrifstofutíma, ef eitthvað kemur upp á,“ segir Bjarni G. Hjarðar, sérfræðingur á þróunarsviði Eignaumsjónar, að lokum.