Búið er að halda 630 hús- og aðalfundi á vegum Eignaumsjónar frá byrjun janúar til aprílloka. Í maímánuði eru 65 fundir á dagskrá en ekki liggur ljóst fyrir hvort Eignaumsjón þurfi að sjá um aðalfundi fyrir 50 húsfélög sem eru í þjónustuleið Þ-1 hjá félaginu, þar sem fundarhald er ekki innifalið.
Af þeim 630 fundum sem er lokið voru aðalfundir 615 og húsfundir 15, auk þess sem félagið hefur boðað til 15 húsfunda sem húsfélögin hafa séð um sjálf. Af þessum 630 fundum voru 464 haldnir í fundarsölum Eignaumsjónar á Suðurlandsbraut í Reykjavík, húsfélögunum að kostnaðarlausu. 166 fundir voru haldnir á öðrum stöðum, þar af 69 á höfuðborgarsvæðinu og 97 utan höfuðborgarsvæðisins.
Á áttunda þúsund hafa mætt á fundi það sem af er
Fundir hafa heilt yfir gengið vel. Þurft hefur að fresta innan við 10 fundum og halda framhaldsaðalfund. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa voru viðhaldsmál, dýrahald og sorphirða mikið til umræðu, ásamt rafhleðslukerfum og breytingum á húsreglum.
Heildarfjöldi gesta sem mætt hafa á aðal- og húsfundi hjá Eignaumsjón það sem af er fundatíðinni er 7.583. Meðalfjöldi á fundi eru 12 gestir, 99 mættu á fjölmennasta fundinn en minnsta mæting á fund var einn gestur. Meðalfundartími telst vera einn tími og 13 mínútur, það sem af er, en lengsti fundurinn stóð í tvo tíma og 56 mínútur. Stysti fundurinn stóð í 10 mínútur en heildartímafjöldi funda er samtals 727,5 klukkutímar.
Hádegisfundur með nýjum stjórnum á döfinni
Vel þótti takast til sl. vor þegar efnt var til hádegisfundar með stjórnum og skoðunarmönnum hús- og rekstrarfélaga sem eru í þjónustu hjá Eignaumsjón. Á fundinum var farið yfir hlutverk og ábyrgð stjórna hús- og rekstrarfélaga, ásamt þjónustu Eignaumsjónar og samstarfið fram undan. Stefnt er að því að halda slíkan hádegisfund aftur seinnipartinn í maí. Þá verður aðalfundum á vegum fyrirtækisins vonandi að mestu lokið og nýjar stjórnir teknar til starfa í félögum og sitjandi stjórnir komanar með endurnýjað umboð til áframhaldandi starfa. Tilkynnt verður um fundardag og tíma þegar nær dregur.