Vorfundur um þjónustuna og samstarfið við Eignaumsjón

Vorfundur um þjónustuna og samstarfið við Eignaumsjón

Ríflega 100 gestir, 66 í sal og 41 á Teams, mættu á vorfund Eignaumsjónar í gær með stjórnendum hús- og rekstrarfélaga sem eru í þjónustu hjá fyrirtækinu. Tilefni fundarins var fara yfir rekstur húsfélaga og þjónustuna og samstarfið við Eignaumsjón, nú þegar aðalfundum er nú að mestu lokið á yfirstandandi fundartíð og nýjar stjórnir hafa tekið til starfa, eða sitjandi stjórnir fengið endurnýjað umboð.

Ágústa Katrín Auðunsdóttir, forstöðumaður fjármálasviðs, kynnti vörhús gagna; greiningarvinnu sem er hafin á rekstrarkostnaði fjöleignarhúsa en hvergi hérlendis er að finna jafn stórt gagnasafn um rekstur fjöleignarhúsa og hjá Eignaumsjón. Nefndi hún t.d. að bæði HMS og Grænni byggð hafi sýnt því áhuga að fá aðgang að slíkum upplýsingum.

Mestu viðhaldsútgjöldin í 21-40 ára húsum

Niðurstöður úr greiningunni sem Ágústa fór yfir á fundinum sýna m.a. að almennt er ekki safnað í mikla framkvæmdasjóði í nýrri fjöleignarhúsum. Hins vegar, þegar hús eru orðin 21-40 ára er oft kominn tími á stærri viðhaldsframkvæmdir og þá er jafnan meiri söfnun í gangi. Þá sýna gögnin að fjölbýlishús sem eru eldri en 41 árs, hafa mörg hver farið í gegnum miklar viðhaldsframkvæmdir og þá fari söfnun í framkvæmdasjóð aftur minnkandi, samanborið við söfnun í framkvæmdasjóð fyrir 21-40 ára gömul hús.

Fram kom einnig hjá Ágústu að þegar horft er á aðra stóra þætti húsgjalda, eins og tryggingar og hita, sjáist m.a. að viðmið í reiknilíkönum tryggingarfélaga hækki í takt við aldur húsa því líkur á tjóni séu taldar meiri í eldri húsum en nýrri. Hitatölur eru hins vegar hærri í nýjum húsum, sem kunni að skýrast af flóknari hitakerfum og snjóbræðslukerfum, sem og jafnvel stærri gluggum. Benti Ágústa á ýmis ráð til að lækka kostnað húsfélaga, fór yfir mismunandi sjóðstöðu húsfélaga og umræðu um samanburð á gjöldum húsfélaga. Þar er oft um að ræða þætti sem viðskiptavinir telja samanburðarhæfa en eru það ekki þegar betur er að gáð! Glærur Ágústu má skoða hér.

90% viðskiptavina í þjónustuleiðum Þ2 og Þ3

Fram kom í kynningu Páls Þórs Ármann, sem starfar við sölu og samskipti hjá Eignaumsjón, að um 90% allra hús- og rekstrarfélaga sem eru í þjónustu hjá Eignaumsjón nýti sér þjónustuleiðir Þ-2 eða Þ-3 í grunnþjónustu Eignaumsjónar. Til viðbótar við fjármálaþjónustu, sem er þjónustuleið Þ-1 og um 10% viðskiptavina nýta sér eingöngu, fela þjónustuleiðir Þ-2 og Þ-3 annars vegar í sér fjármála- og fundaþjónustu og hins vegar fjármála-, funda- og ráðgjafarþjónustu.

Hertar reglur banka gegn peningaþvætti hafa lagt verulega auknar kröfur á húsfélög um gagnaskil og staðfestingu stjórnarkjörs á aðalfundum húsfélaga og sagði Páll að fyrir vikið hafi fleiri félög verið að færa sig úr þjónustuleið Þ-1 í þjónustuleið Þ-2, til að auðvelda sér gagnaskil til banka, sem Eignaumsjón sér þá um.

Sérþjónusta Eignaumsjónar

Páll kynnti einnig Húsumsjón, Eignavöktun og Bílastuð, viðbótarþjónustuleiðir sem Eignaumsjón býður hús- og rekstrarfélögum, ef þörf er fyrir þannig þjónustu.

Húsumsjón, sem um 40 húsfélög eru þegar að nýta sér, snýr að reglubundnu eftirliti og umsjón með sameign húsfélags. Eignavöktun, sérþjónusta um aðgangsstýringar og öryggismál, var kynnt til sögunnar í mars á þessu ári og hefur hlotið góðar viðtökur að sögn Páls. Bílastuð, aðstoð við húsfélög sem vilja setja upp grunnkerfi fyrir rafbílahleðslu, hefur einnig mælst vel fyrir. Páll upplýsti að búið væri að vinna um 150 úttektir og verðkannanir, auk þess sem yfir 50 húsfélög hafi þegar gert samninga við Eignaumsjón um sjálfvirka innheimtu rafhleðslunotkunar með húsgjöldum viðkomandi notenda. Glærur Páls má skoða hér.

Samskipti við stjórnir og Húsbókin

Gunnþór S. Jónsson, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar, stiklaði á stóru um hlutverk Eignaumsjónar sem er í raun skrifstofa húsfélaga og sér um dagleg samskipti við félagsmenn, þjónustuaðila og banka, í samræmi við þá þjónustuleið sem viðkomandi húsfélag er í. Hann ítrekaði mikilvægi skilvirkra samskipta milli Eignaumsjónar og stjórna – og að fylgt væri reglum um samþykkt reikninga og greiðslu útgjalda, svo dæmi séu nefnd. Gunnþór fór enn fremur lauslega yfir hlutverk húsfélags, stjórna fjöleignarhúsa og formanns, upplýsingaskyldu stjórna gagnvart eigendum og hlutverk skoðunarmanna ársreikninga, samkvæmt skilgreiningu lagagreina 66-73 í fjöleignarhúsalögunum.

Gunnþór kynnti einnig Húsbókina – mínar síður eigenda, sem fór í loftið í október 2020 og hefur síðan verið í stöðugri þróun. Farið er inn í Húsbókina með því að smella á flipa uppi til hægri á heimasíðu Eignaumsjónar og skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Sýnt var hvernig Húsbókin er aðgengileg bæði stjórnum húsfélaga og eigendum, sem og þeim sem eigendur veita umboð til að fara inn með sínum aðgangi.

Vinna áfram tölfræði tengda fjöleignarhúsum

Framsöguerindin sem flutt voru á fundinum hafa nú verið gerð aðgengileg öllum sem hafa aðgang að Húsbókinni. Að lokinni framsögu urðu líflegar umræður þegar opnað var fyrir fyrirspurnir og ábendingar, undir stjórn Höllu Mjallar Stefánsdóttur fundarstjóra.

Lokaorðin á fundinum átti framkvæmdastjóri Eignaumsjónar, Daníel Árnason. Hann sagði tilgang samkomunnar að efla upplýsingaflæði til stjórnenda húsfélaga, ekki síst þeirra sem eru að sinna stjórnarsetu í fyrsta sinn. „Við viljum halda áfram þessum hádegisfundum með stjórnum og vona ég fundurinn í dag hafi gagnast þeim sem mættu,“ sagði Daníel og áréttaði að stefnt væri að því að vinna áfram kostnaðartölfræði tengda fjöleignarhúsum og nýta til gagns fyrir viðskiptavini Eignaumsjónar.

VSK-endurgreiðsla fellur úr gildi í árslok af uppsetningu hleðslukerfa og hleðslustöðva

VSK-endurgreiðsla fellur úr gildi í árslok af uppsetningu hleðslukerfa og hleðslustöðva

Eignaumsjón mætir auknum umsvifum með skipulagsbreytingum

Eignaumsjón mætir auknum umsvifum með skipulagsbreytingum

Starfsemi Eignaumsjónar hefur verið endurskipulögð til að betrumbæta þjónustu við viðskiptavini og mæta nýjum verkefnum og auknum umsvifum fyrirtækisins. Breytingarnar fela m.a. í sér að starfsemi Húsumsjónar er færð undir þjónustusvið og jafnframt hefur nýr forstöðumaður þjónustusviðs verið ráðinn til starfa.

„Með þessum skipulagsbreytingum erum við að samstilla betur þjónustu okkar við hús- og rekstrarfélögin á tveimur meginsviðum, fjármálasviði og þjónustusviði. Fjármálasviðið annast alla þjónustu er snýr að fjármálum en Húsumsjón, sérþjónusta okkar við stærri hús- og rekstrarfélög og rafbílahleðsluþjónusta fyrir húsfélög, færast undir þjónustusviðið, til viðbótar við ráðgjafar-, funda- og þjónustuverkefni,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.

Nýr forstöðumaður þjónustusviðs

Gunnþór Steinar Jónsson er nýr forstöðumaður þjónustusviðs. Gunnþór er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og kemur til Eignaumsjónar frá Marel, þar sem hann starfaði í sex ár, lengst af sem yfirmaður þjónustu við viðskiptavini erlendis og viðskiptaráðgjöf og markaðsgreiningar. Áður starfaði Gunnþór m.a. hjá Íslandsbanka í yfir áratug, bæði sem lána- og viðskiptastjóri og í fyrirtækja- og einstaklingsráðgjöf.

Nýtt skipurit – ný stoðsvið

Til viðbótar við meginsviðin tvö eru í nýju skipuriti Eignaumsjónar fjögur stoðsvið, sem heyra undir framkvæmdastjóra.

  • Atvinnuhús: Sigurbjörg Leifsdóttir, viðskiptafræðingur og fyrrum forstöðumaður fasteignasviðs, leiðir áfram þjónustu við atvinnuhús. Íbúðaumsjón, ný sérþjónusta Eignaumsjónar og sérverkefni heyra einnig undir sviðið.
  • Sala og samskipti: Sölu-, markaðs- og kynningarmál eru sameinuð undir einum hatti. Páll Þór Ármann, rekstrarhagfræðingur og fyrrum forstöðumaður þjónustusviðs, er þar í forsvari.
  • Þróun: Stærri og flóknari fjöleignarhús kalla á sérhæfðri þjónustu og fjölbreytilega aðstoð. Bjarni G. Hjarðar, byggingar- og umhverfisverkfræðingur, leiðir þróunarvinnu Eignaumsjónar.
  • Tækni: Upplýsingatækni er æ mikilvægari í starfsemi Eignaumsjónar til að tryggja skilvirka upplýsingagjöf og örugga geymslu gagna. Emil Hilmarsson tölvunarfræðingur er upplýsingastjóri Eignaumsjónar.

Breytt framkvæmdastjórn

Breytt framkvæmdastjórn Eignaumsjónar er skipuð Daníel Árnasyni framkvæmdastjóra, Ágústu Katrínu Auðunsdóttur, forstöðumanni fjármálasviðs og Gunnþóri Steinari Jónssyni, forstöðumanni þjónustusviðs.

Hagnýtt verkfæri fyrir húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsa

Hagnýtt verkfæri fyrir húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsa

Eignaumsjón er leiðandi fyrirtæki í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsa og hafa umsvif félagsins vaxið jafnt og þétt á þeim 23 árum sem það hefur verið starfandi. Áhersla er lögð á faglega nálgun, öryggi, gæðamál og skýra verkferla en fyrirtækið er í dag með samningsbundna þjónustu við um 800 félög af öllum stærðum og gerðum með um 18 þúsund íbúðum/fasteignum.

,,Við viljum vera hagnýtt verkfæri fyrir fasteignaeigendur og leiðandi í allri umsjón og þjónustu við rekstur fasteigna, hvort sem um íbúðar- eða atvinnuhúsnæði er að ræða. Við erum brautryðjendur í þessari þjónustu hérlendis, sem var ekki fyrir hendi þegar Eignaumsjón tók til starfa árið 2000 og erum leiðandi á þessum markaði,“ segir Daníel Árnason framkvæmdastjóri.

Þjónustuleiðir í takt við þarfir hvers félags

Þrjár mismunandi þjónustuleiðir eru í boði fyrir húsfélög, allt eftir því hvers mikla þjónustu þau vilja nýta sér. Í leið 1 er vel haldið utan um öll fjármál húsfélagsins, bókhald og gerð ársreikninga. Í leið 2 bætist allt utanumhald um aðalfundi við fjármálaþjónustuna og í þjónustuleið 3 bætist við útvegun þjónustu og tilboða í gegnum þjónustuver Eignaumsjónar, s.s. vegna þrifa, lóðahirðu, trygginga o.fl.

„Þessi þjónusta er líka í boði fyrir rekstrarfélög atvinnuhúsa. Í atvinnuhúsum tökum við einnig að okkur að vera framkvæmdastjóri og sérsníðum þá lausnir fyrir hvert verkefni til að tryggja að allir sem hafa hagsmuna að gæta sitji við sama borð,“ bætir Daníel við.

Vaxandi þörf fyrir sérþjónustu af ýmsu tagi

Til að koma til móts við óskir viðskiptavina um aukið eftirlit með sameign húsfélaga byrjaði fyrirtækið fyrir sex árum að bjóða upp á Húsumsjón, sem er sérþjónusta fyrir bæði stærri húsfélög og atvinnuhúsnæði. Þjónustan kemur í stað hefðbundinnar húsvörslu og er hagkvæm og skynsamleg lausn. Fagmaður fer þá reglulega yfir ástand sameignar hússins, gerir nauðsynlegar úrbætur og fylgist með orkunotkun sem og öðrum kerfum og búnaði eignarinnar, sem þarf að vera í góðu lagi.

„Aðstoð vegna hleðslu rafbíla með hagsmuni húsfélaga að leiðarljósi er önnur sérþjónusta sem nýtur líka vaxandi vinsælda hjá okkur, í takt við hraða fjölgun rafmagnsbíla. Við lítum á rafhleðslukerfi sem eitt af grunnkerfum húsfélaga og eykur bæði virði fasteigna og sölulíkur. Rafbílahleðsluþjónusta okkar fyrir húsfélög uppfyllir lagalegar skyldur húsfélaga vegna hleðslubúnað rafbíla og nær til bæði ástandsgreiningar, öflunar tilboða, ákvörðunartöku, reksturs og sjálfvirkrar innheimtu með réttri skiptingu kostnaðar milli húsfélags og notenda

Daníel nefnir einnig íbúðaumsjón, splunkunýja þjónustuleið fyrir fasteignaeigendur á höfuðborgarsvæðinu sem búsettir eru erlendis eða annars staðar á landinu. Þjónustan er sérsniðin að þörfum íbúðareiganda og nær til bæði reglubundins eftirlits og reksturs eignarinnar.

Örugg gagnavarsla og öflug miðlun upplýsinga

Framkvæmdastjórinn segir það áskorun að uppfylla þarfir viðskiptavina Eignaumsjónar um faglega og skilvirka afgreiðslu. Því hefur í takt við aukin umsvif verið byggt upp sérhannað, öflugt tölvukerfi fyrir starfsemina með áherslu á skilvirkni, hagkvæmni og örugga geymslu gagna.

,,Tölvukerfið hjálpar okkur líka að halda vel utan um öll þau fjölbreyttu verkefni sem við erum að glíma við dagsdaglega fyrir viðskiptavini okkar. Við leggjum mikla áherslu á að miðla upplýsingum til eigenda og stjórna, bæði með beinum samskiptum í gegnum þjónustuverið og starfsfólkið, sem og á samfélagsmiðlum, heimasíðunni okkar og í Húsbókinni; mínum síðum eigenda, sem hefur mælst vel fyrir hjá okkar viðskiptavinum,“ segir Daníel. Hann bætir við að það sé fyrirtækinu líka metnaðarmál að bjóða viðskiptavinum upp á góða fundaraðstöðu á skrifstofunni á Suðurlandsbraut 30 sem nýtist vel þegar aðalfundir húsfélaga fara fram, frá áramótum til aprílloka.

„Hjá okkur starfar traust og öflugt starfsfólk og gaman að segja frá því að sl. tvö ár höfum við verið í hópi 15 meðalstórra fyrirmyndarfyrirtækja VR. Fjárhagsleg staða fyrirtækisins er góð, eigið fé jákvætt og um 25% vöxtur hefur verið í starfseminni undanfarin ár. Þá vil ég líka nefna að við höfum staðist úttektir endurskoðenda á innri ferlum fjármála og öryggi kerfa, jafnframt því sem fyrirtækið er með starfsábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu tryggingarfélagi og því tilbúið að mæta bótaskyldu sem á það gæti fallið.“

Til þjónustu reiðubúin

Framkvæmdastjóri Eignaumsjónar er þess fullviss að þjónusta við fasteignaeigendur haldi áfram að vaxa og dafna og segir fyrirtækið tilbúið að mæta þeim áskorunum, eins og það hafi gert í rúmlega tvo áratugi.

„Fjöleignarhúsum fjölgar, þau verða sífellt stærri og flóknari og mikilvægt er fyrir bæði byggingaraðila og nýja eigendur að ná utan um þessi stóru samfélög strax í byrjun með skipulögðum og formföstum hætti. Þar getum við lagt lið og erum til þjónustu reiðubúin,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri að lokum.

Viðtal við framkvæmdastjóra Eignaumsjónar, í Sóknarfæri í ágústlok 2023 (bls. 24-25)

 

 

 

Óvissu eytt um kröfur til hleðslustöðva rafbíla

Óvissu eytt um kröfur til hleðslustöðva rafbíla

RÚV greinir frá því í dag að Orkustofnun telji mæla í hleðslustöðvum Orku náttúrunnar standast kröfur og því hafi langvarandi réttaróvissu verið eytt um hvaða kröfur sölumælar í hleðslustöðvum skuli uppfylla, í það minnsta í bili.

Forsaga málsin er að fyrirtækið Ísorka, sem selur hleðslulausnir, kvartaði formlega til Orkustofnunar og óskaði eftir að stofnunin rannsakaði búnað hleðslustöðva sem samkeppnisaðili þess, Orka náttúrunnar, notar. Taldi Ísorka að mælar í hleðslustöðvum þyrftu að hafa svokallaða gerðarviðurkenningu, samkvæmt evrópskum stöðlum.

Krafa um gerðarviðurkenningu tekur bara til mælabúnaðar í dreifiveitum

Orkustofnun tók í fyrstu undir túlkun Ísorku og spurningar vöknuðu um hvort stór hluti hleðslustöðva á íslandi kynni að vera ólöglegur en samkvæmt frétt RÚV hefur Orkustofnun nú komist að þeirri niðurstöðu að mælar ON uppfylli lög. Er það mat stofnunarinnar að kröfur um gerðarviðurkenningu taki einungis til mælabúnaðar í dreifiveitum og ekki sé þörf á að mælibúnaður í hleðslustöðvum þjónustuveitenda uppfylli umræddar kröfur.

Bent er á í lok fréttar RÚV að ákvörðun Orkustofnunar megi kæra til úrskurðarnefndar raforkumála og að kærufrestur er 30 dagar. Nánar má lesa um niðurstöðu Orkustofnunar hér.