RÚV greinir frá því í dag að Orkustofnun telji mæla í hleðslustöðvum Orku náttúrunnar standast kröfur og því hafi langvarandi réttaróvissu verið eytt um hvaða kröfur sölumælar í hleðslustöðvum skuli uppfylla, í það minnsta í bili.
Forsaga málsin er að fyrirtækið Ísorka, sem selur hleðslulausnir, kvartaði formlega til Orkustofnunar og óskaði eftir að stofnunin rannsakaði búnað hleðslustöðva sem samkeppnisaðili þess, Orka náttúrunnar, notar. Taldi Ísorka að mælar í hleðslustöðvum þyrftu að hafa svokallaða gerðarviðurkenningu, samkvæmt evrópskum stöðlum.
Krafa um gerðarviðurkenningu tekur bara til mælabúnaðar í dreifiveitum
Orkustofnun tók í fyrstu undir túlkun Ísorku og spurningar vöknuðu um hvort stór hluti hleðslustöðva á íslandi kynni að vera ólöglegur en samkvæmt frétt RÚV hefur Orkustofnun nú komist að þeirri niðurstöðu að mælar ON uppfylli lög. Er það mat stofnunarinnar að kröfur um gerðarviðurkenningu taki einungis til mælabúnaðar í dreifiveitum og ekki sé þörf á að mælibúnaður í hleðslustöðvum þjónustuveitenda uppfylli umræddar kröfur.
Bent er á í lok fréttar RÚV að ákvörðun Orkustofnunar megi kæra til úrskurðarnefndar raforkumála og að kærufrestur er 30 dagar. Nánar má lesa um niðurstöðu Orkustofnunar hér.