Eignaumsjón um allt land

Eignaumsjón um allt land

Eignaumsjón er leiðandi fyrirtæki á Íslandi á sviði þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög fasteigna, með nær aldarfjórðungs reynslu og þekkingu á rekstri fjöleignarhúsa. Áhersla er lögð á hlutleysi, gæði, öryggi og skýra verkferla – allt til að tryggja viðskiptavinum bæði faglegan og fjárhagslegan árangur, sem og gott viðhald og varðveislu fasteigna og verðmæta þeirra.

Starfsemin hófst á höfuðborgarsvæðinu – Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi – en hefur vaxið ört samhliða aukinni vitund og jákvæðu viðhorfi almennings til þjónustunnar.

Í dag sinnir Eignaumsjón fjölmörgum svæðum víðs vegar um landið. Þjónusta er nú veitt meðal annars í Reykjanesbæ, Vogum, Selfossi, Akranesi, Borgarnesi, Suðurnesjabæ, Vestmannaeyjum, Akureyri, Húsavík, Eskifirði og Egilsstöðum – og nýverið bættist fyrsta húsfélagið á Ísafirði í hóp viðskiptavina okkar.

Frumkvöðlar á sviði húsfélagaþjónustu

Fyrstu ár starfseminnar einkenndust af frumkvöðlastarfi, þar sem Eignaumsjón mótaði þjónustu sína frá grunni og kynnti nýjan og framandi valkost fyrir fasteignaeigendum. Það reyndist tímafrekt og krafðist mikillar þolinmæði.

Til að byrja með fólst þjónustan einkum í fjármálastjórn húsfélaga, ráðgjöf, fundarstjórn, útgáfu húsfélagayfirlýsinga og umsjón með þjónustu- og viðhaldsaðilum.

Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á stöðuga þróun og nýsköpun til að mæta þörfum viðskiptavina. Hlutleysi og hagsmunagæsla eru hornsteinar í starfseminni – þar sem ávallt er leitað bestu kjara fyrir viðskiptavini í krafti fjöldans. Gagnsæi, traust og sýnileiki í meðferð fjármuna eru grundvallargildi.

Á síðari árum hefur tæknin verið nýtt markvisst til að bæta skilvirkni og þjónustugæði. Þróuð hafa verið sérsniðin upplýsingakerfi og ráðinn byggingarverkfræðingur til að efla tæknilega ráðgjöf og faglega þjónustu enn frekar.

Húsbókin – upplýsingar með einum smelli

Í takt við kröfur samtímans er nú lögð rík áhersla á skjót og aðgengileg samskipti við eigendur og stjórnir húsfélaga. Þar gegnir Húsbókin – mínar síður eigenda og greiðenda – lykilhlutverki.

Húsbókin er örugg upplýsingaveita þar sem eigendur og stjórnir geta nálgast upplýsingar um sameignina, skoðað greiðslustöðu og fylgst með verkefnum hvenær sem er – í tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma.

Fagleg þjónusta, hvar sem þú ert

Við hjá Eignaumsjón erum stolt af því að veita faglega og áreiðanlega þjónustu um allt land. Við leggjum áherslu á sveigjanleika, persónulega nálgun og öflugan stuðning við rekstur húsfélaga – óháð staðsetningu.

Undirbúningur aðalfunda 2025 gengur vel hjá Eignaumsjón

Undirbúningur aðalfunda 2025 gengur vel hjá Eignaumsjón

Hátt í þúsund aðalfundir húsfélaga og rekstrarfélaga eru á dagskrá hjá Eignaumsjón eftir áramót og fram til aprílloka 2025. Undirbúningur er nú í fullum gangi fyrir aðalfundi sem hefjast miðvikudaginn 8. janúar 2025.

„Það stefnir í um 300 fleiri aðalfundi en í fyrra og til að mæta því höfum við bætt laugardögum við sem fundardögum,“ segir Þór Gíslason, ráðgjafi hjá Eignaumsjón, sem er að púsla saman fundaplani aðalfunda ásamt þeim Ingibjörgu Önnu Björnsdóttur, Sigríði Guðmundsdóttur og Höllu Mjöll Stefánsdóttur.

„Við fluttum skrifstofuna okkar í haust á aðra hæðina á Suðurlandsbraut 30 og frá áramótum verður aðstaða fyrir allt að 120 manna fundi  í nýjum fundarsölum okkar í bakhúsinu þar. Flestir aðalfundanna verða haldnir í fundarsölum okkar en einnig í fundarsölum úti í bæ eða í aðstöðu sem viðkomandi húsfélög leggja til.“

Rafræn boðun funda öruggust

Mikið er lagt upp úr réttri boðun aðalfunda, til að tryggja að fundirnir verði löglegir en boða skal til aðalfunda með minnst átta og mest 20 daga fyrirvara, með sannanlegum hætti.

„Öruggasta og skilvirkasta boðunarleið aðalfundar er með tölvupósti til eiganda sem skráður er í Húsbókina á heimasíðunni okkar. Við hvetjum því alla eigendur, sem hafa ekki virkjað Húsbókina til að gera það. Það er ekki flókið. Viðkomandi skráir sig inn í fyrsta sinn með því að smella á Húsbókarhnappinn efst til hægri á www.eignaumsjon.is, auðkennir sig með rafrænum skilríkjum og skráir inn netfang. Fundarboð eru send í bréfpósti á eigendur sem eru með lögheimili utan viðkomandi fasteignar en annars sér stjórn um að hengja upp fundarboð í sameign,“ segir Þór.

Málefni aðalfundar

Á aðalfundi skal fyrst og fremst ræða um innri málefni félagsins; afgreiða ársreikning og kostnaðar- og húsgjaldaáætlanir, kjósa félaginu stjórn og taka ákvarðanir um næstu áfanga í starfsemi viðkomandi félags.

„Við leggjum áherslu á að stjórnir og formenn fari vel yfir dagskrá aðalfunda og þau mál sem ræða þarf, s.s. viðhald og framkvæmdir, svo ákvarðanataka verði markviss og skýr,“ bætir Þór við og minnir jafnframt á að ef eigendur vilja að tiltekin mál verði tekin til umfjöllunar á aðalfundi, þurfi þeir að koma skriflegri ósk þar um til stjórnar með góðum fyrirvara, til að unnt sé að geta umræddra mála í fundarboði.

Aðalfundargögn aðgengileg í Húsbókinni

„Að lokum skal áréttað að fundargögn verða ekki lengur prentuð út þegar aðalfundir eru haldnir í fundarsölum Eignaumsjónar heldur varpað upp á skjá. Þessi breyting er liður í viðleitni okkar að sýna samfélagslega ábyrgð og draga úr pappírssóun,“ segir Þór, enda verða gögnin aðgengileg rafrænt í Húsbókinni tímanlega fyrir aðalfund, bæði ársreikningur fyrir árið 2024, kostnaðar- og húsgjaldaáætlun fyrir árið 2025, ásamt fundarboði og öðrum gögnum sem leggja á fyrir aðalfundinn.

Breytingar á innskráningu í Húsbók Eignaumsjónar

Breytingar á innskráningu í Húsbók Eignaumsjónar

Innskráning í Húsbók á vef Eignaumsjónar hefur verið færð yfir til Signet – Advania eftir að innskráningarþjónustu island.is var lokað fyrir aðra en opinbera aðila frá 1. september 2024.

Í innskráningarþónustu Signet – Advania er áfram í boði að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum, s.s. snjallsíma, sem og auðkennisappi og fleiri leiðum. Íslykillinn dettur hins vegar út þar sem hann virkar eingöngu hjá island.is.

Umboð í stað íslykils

Í stað íslykils er nú í boði að veita umboð, sem bæði fyrirtæki og einstaklingar geta þá nýtt sér. Undir hnappnum „UM OKKUR“ á heimasíðu Eignaumsjónar er að finna undirsíðu – Umboð fyrir Húsbókina – þar sem er hlekkur til að veita umboð, sem og nákvæmar leiðbeiningar um hvernig það er gert.

Þannig geta eigendur/greiðendur veitt öðrum umboð til að sýsla með sín málefni í Húsbókinni og í tilfelli fyrirtækja/lögaðila geta prókúruhafar sömuleiðis fyllt þar út umboð sem heimilar þá umboðshafa að fara með málefni viðkomandi lögaðila í Húsbókinni.

Þjónustuverið aðstoðar ef þörf er á

Ef einhver vandkvæði koma upp við innskráningu minnum við á að hægt er að leita aðstoðar hjá þjónustuverinu okkar í netspjalli eða senda tölvupóst á thjonusta@eignaumsjon.is, eða hringja í síma 585-4800.

Komið til móts við óskir um rýmkun aðgangsheimilda í Húsbókinni

Komið til móts við óskir um rýmkun aðgangsheimilda í Húsbókinni

Fasteignaeigendur og greiðendur húsgjalda í húsfélögum hjá Eignaumsjón geta nú veitt öðrum aðgang að upplýsingum tengdum sinni eign í Húsbókinni – mínum síðum eigenda. „Breytingarnar ættu að vera fagnaðarefni fyrir aðstandendur sem taka að sér samskipti við húsfélög hjá okkur,“ segir Gunnþór Steinar Jónsson, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar. „Þetta kemur sér einnig vel fyrir starfsfólk fyrirtækja og félaga sem eiga fasteignir í húsfélögum sem eru í þjónustu hjá okkur, sem og skiptastjóra dánarbúa og erfingja.“

Fasteignaeigendur og greiðendur sem vilja veita umboðshafa aðgang að sínum húsbókaraðgangi, gera það með því að skrá sig inn í húsbókina og slá inn kennitölu viðkomandi og veita samþykki. Í framhaldinu getur þá umboðshafi skráð sig inn í húsbókina á sínum rafrænu skilríkjum. „Ef um aðgang að Húsbók dánarbús er að ræða gætu aðstandendur þurft að leita aðstoðar hjá þjónustuverinu okkar til að breyta aðgangsheimildum,“ áréttar Gunnþór.

„Önnur áhugaverð nýjung sem við erum búin að setja inn í Húsbókina er að stjórnir hafa nú aðgang þar að lista yfir eigendur fasteigna sem tilheyra viðkomandi húsfélagi, sem veitir stjórn á hverjum tíma betri yfirsýn og auðveldar samskipti.“

Öll helstu gögn aðgengileg

„Með tilkomu Húsbókarinnar í nóvember 2020, fyrir sléttum þremur árum, var stigið stórt skref til að bæta enn frekar þjónustu við viðskiptavini okkar,“ segir Gunnþór. Þar geta bæði eigendur og stjórnir í húsfélögum og rekstrarfélögum atvinnuhúsa séð upplýsingar um sitt húsfélags og fylgst með greiðslustöðu, hvar og hvenær sem hentar, í tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma. Eigendur sjá m.a. upplýsingar um húsgjöld, greiðsluseðla, fundargerðir og kröfusögu. Stjórnir hafa yfirsýn yfir daglega fjárhagsstöðu húsfélagsins; stöðu bankareikninga, útistandandi húsgjöld/framkvæmdagjöld og stöðu innheimtukrafna allra greiðenda. Þá er hægt að tilkynna nafnabreytingar, eigendaskipti og breytingar á heimilisfangi í Húsbókinni, óska eftir húsfélagsyfirlýsingu vegna sölu á fasteignum, senda inn beiðnir fyrir útlögðum kostnaði og virkja afslætti sem standa viðskiptavinum Eignaumsjónar til boða. Þegar við á eru eftirlitsskýrslur vegna Húsumsjónarþjónustu Eignaumsjónar einnig aðgengilegar stjórnum í Húsbókinni.

„Nú styttist í tíma aðalfunda hús- og rekstrarfélaga og má því líka nefna að í aðdraganda aðalfunda eru öll fundargögn aðgengileg í Húsbókinni. Ég vil líka hvetja eigendur til að haka við beiðni í Húsbókinni um að fá sent rafrænt aðalfundarboð, það eykur skilvirkni fundarboðunar. Í Húsbókinni er enn fremur hægt að nálgast  ársreikninga, kostnaðaráætlanir, tryggingarskírteini og ýmis gögn sem snúa að viðhaldi og framkvæmdum viðkomandi húsfélags,“ bætir Gunnþór við.

Fleiri endurbætur á döfinni

Samhliða breytingunum núna hefur leit í Húsbókinni verið endurbætt og textar samræmdir til að hafa allt notendaviðmót sem fljótvirkast og þægilegast. Notandi þarf ávallt að skrá sig þegar farið er inn í Húsbókina úr nýju tæki eða tölvu en til hagræðis helst aðgangur virkur í 35 daga í viðkomandi tæki. Innskráning í Húsbókina er aðgangsstýrð með rafrænum skilríkjum í snjallsíma eða með íslykli, til að tryggja að einungis þeir sem eiga rétt á að skoða umrædd gögn hafi aðgang að þeim.

„Það er markmið okkar að efla Húsbókina enn frekar á næsta ári, enda er það trú okkar að greinargóðar og aðgengilegar upplýsingar auki virði fasteigna. Við viljum að eigendur í húsfélögum og atvinnuhúsum sem eru í þjónustu okkar njóti þess,“ segir Gunnþór að lokum.

Húsbókin – aðgengilegar upplýsingar auka gagnsæi og virði eigna

Húsbókin – aðgengilegar upplýsingar auka gagnsæi og virði eigna

Húsbókin – mínar síður eigenda – er rafræn þjónustu- og upplýsingagátt fyrir fasteignaeigendur sem eru í þjónustu hjá Eignaumsjón. Þar geta bæði eigendur og stjórnir í húsfélögum og rekstrarfélögum atvinnuhúsa nálgast upplýsingar um málefni síns húsfélags á einfaldan hátt og fylgst rafrænt með greiðslustöðu og verkefnum, hvar og hvenær sem þeim hentar, í tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma.

Í húsbókinni hafa eigendur aðgang að nýjustu upplýsingum um sína eign í rauntíma, s.s. húsgjöld, greiðsluseðla og kröfusögu. Stjórnarmenn sjá líka daglega fjárhagsstöðu húsfélagsins, stöðu bankareikninga, útistandandi húsgjöld/framkvæmdagjöld og stöðu innheimtukrafna allra greiðenda.

Öll fundargögn aðgengileg í Húsbókinni

Í aðdraganda aðalfunda eru öll fundargögn aðgengileg í Húsbókinni og þar er enn fremur hægt að nálgast fundargerðir, ársreikninga, kostnaðaráætlanir, tryggingarskírteini og ýmis gögn sem snúa að viðhaldi og framkvæmdum viðkomandi húsfélags.

Þá er hægt að framkvæma nafnabreytingar, eigendaskipti og breytingar á heimilisfangi í Húsbókinni, óska eftir yfirlýsingu húsfélags vegna sölu á fasteignum, senda beiðnir vegna útlagðs kostnaðar og virkja afslætti sem standa viðskiptavinum Eignaumsjónar til boða.

Eftirlitsskýrslur húsumsjónar eru einnig aðgengilegar stjórnarmönnum í Húsbókinni ef við á, sem og önnur gögn sem snúa að stjórn húsfélagsins.

Örugg gagnageymsla

Leitast er við að hafa allt notendaviðmót Húsbókarinnar sem fljótvirkast og þægilegast. Til dæmis helst aðgangur virkur í 35 daga í viðkomandi tæki eða tölvu en notandi þarf ávallt að skrá sig inn á ný, þegar farið er inn í Húsbókina úr nýju tæki eða tölvu.

Til að tryggja sem best öryggi gagna er innskráning í Húsbókina aðgangsstýrð gegnum island.is með rafrænum skilríkjum í snjallsíma eða íslykli, þannig að einungis þeir sem eiga rétt á að skoða umrædd gögn hafi aðgang að þeim. Við fyrstu innskráningu þarf notandi að skrá sig inn með kennitölu greiðanda og/eða eiganda og samþykkja skilmála Húsbókarinnar með netfangi sínu.

Frekari endurbætur á döfinni

Með tilkomu Húsbókarinnar fyrir tæpum þremur árum var stigið stórt skref í enn betri þjónustu við eigendur fasteigna sem eru í viðskiptum við Eignaumsjón. Markmiðið er að efla hana enn frekar á næstunni, því það er trú okkar að greinargóðar og aðgengilegar upplýsingar auki virði eigna og viljum við að eigendur njóti þess í húsfélögum og atvinnuhúsum sem eru í þjónustu Eignaumsjónar.

Sjá nánar hér.