
Nýir starfsmenn á tæknisviði Eignaumsjónar
Þrír nýir starfsmenn komu nýlega til liðs við tæknisvið Eignaumsjónar til að mæta sívaxandi umsvifum í starfsemi fyrirtækisins. Þetta eru Halldór Ingólfsson þjónustufulltrúi, Pétur Sigurðsson forritari og Sigurður Smári Hergeirsson, sem annast einnig forritun og gagnavinnslu.
Ráðning þremenninganna er í framhaldi af breytingum sem gerðar voru í lok síðasta árs með áherslu á enn frekari stafræna vegferð Eignaumsjónar og eru starfsmenn á tæknisviði nú sjö talsins.
Halldór var þjónustufulltrúi hjá Fjöleignum áður en félagið var sameinað Eignaumsjón sumarið 2024 og var fulltrúi í þjónustuveri Eignaumsjónar, áður en hann færði sig um set yfir á tæknisvið félagsins. Halldór er með próf í vefþróun og margmiðlunarhönnun frá dönskum háskóla og framhaldsskólapróf frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.
Pétur starfaði sem forritari hjá fyrirtækinu Helix, áður en hann réðst til starfa hjá Eignaumsjón. Þar áður starfaði hann sem app forritari hjá Origo heilbrigðislausnum og þar áður sem tæknimaður hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Pétur er með háskólapróf, BSc í tölvunarfræði, frá Háskóla Íslands.
Sigurður Smári vann sem hugbúnaðarsérfræðingur á veflausnasviði hjá Advania áður en hann kom til starfa hjá Eignaumsjón. Þar á undan vann hann sem forritari á hugbúnaðarsviði hjá Reiknistofu bankanna/Teris og þar áður sem sérfræðingur á hugbúnaðarsviði hjá Skýrr. Sigurður Smári er menntaður kerfisfræðingur frá Tölvuháskóla Verzlunarskólans og er með raungreinadeildarpróf/stúdentspróf frá Tækniskóla Íslands.
„Það eru spennandi tímar hjá okkur að mæta fyrirliggjandi áskorunum í hugbúnaðarmálum,“ segir Sigurður Gauti Hauksson, forstöðumaður tæknisviðs Eignaumsjónar, en félagið þjónar í dag á annað þúsund hús- og rekstrarfélögum með á 27. þúsund íbúðum/eignum.
Um Eignaumsjón
Eignaumsjón býr að 25 ára þekkingu og reynslu í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsnæðis. Áhersla er lögð á hlutlausa nálgun, öryggi, gæðamál og skýra verkferla til að gera rekstur fasteigna markvissari og ódýrari, auka upplýsingaflæði til eigenda og auðvelda störf stjórna.