Mar 19, 2025 | Fréttir
Þrír nýir starfsmenn komu nýlega til liðs við Eignaumsjón til að mæta sívaxandi umsvifum í starfsemi fyrirtækisins. Þetta eru þjónustufulltrúarnir Svandís Unnur Þórsdóttir og Róbert Elvar Kristjánsson og Jónars Heiðar, sem sinnir Húsumsjón.
Jónas vann við smíðar og múrverk hjá eigin fyrirtæki í 20 ár, aðallega fyrir tryggingarfélög og leigufélög, áður en hann kom til starfa hjá Eignaumsjón. Hann er með framhaldsskólapróf frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti.
Róbert Elvar starfaði vel á annan áratug sem sérfræðingur á sölusviði Símans áður en hann hóf störf hjá Eignaumsjón. Hann er með stúdentspróf af viðskipta- og verslunarbraut Fjölbrautarskóla Suðurlands og hefur lagt stund á nám í viðskiptafræði við HA og HÍ.
Svandís Unnur er með stúdentspróf af viðskipta- og hagfræðibraut menntaskólans við Sund. Hún starfaði sem þjónustufulltrúi í einstaklingsþjónustu hjá sölu- og síðar sem ráðgjafi á fyrirtækjasviði þjónustusviðs Sýnar hf., áður en hún byrjaði að vinna hjá Eignaumsjón.
Um Eignaumsjón
Eignaumsjón býr að 25 ára þekkingu og reynslu í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsnæðis. Félagið þjónar í dag á annað þúsund hús- og rekstrarfélögum með um 26.500 íbúðum/eignum. Áhersla er lögð á hlutlausa nálgun, öryggi, gæðamál og skýra verkferla til að gera rekstur fasteigna markvissari og ódýrari, auka upplýsingaflæði til eigenda og auðvelda störf stjórna.
Feb 28, 2025 | Fréttir
Fimm ár eru um þessar mundir frá því að fyrstu lóðirnar voru auglýstar til sölu í Breiðumýri, sem er miðsvæðis á Álftanesi, en þar eiga að rísa vel á þriðja hundrað íbúðir við göturnar Grásteinsmýri, Hestamýri og Lambamýri.
Byggingafélagið Þingvangur hefur nú lokið framkvæmdum að mestu við sex fjölbýlishús sem standa á sameiginlegri lóð við Lambamýri 1-6 og eru með sameiginlegan bílakjallara og bílastæði. Hönnuðir húsanna eru Arkþing Nordic arkitektar.
Alls eru 84 íbúðir í húsunum og er þegar flutt inn í margar þeirra. Gert er ráð fyrir verslunarrekstri og þjónustu á jarðhæðum tveggja húsanna og þar mun annars vegar vera horft til reksturs matvöruverslunar og hins vegar þjónustu fyrir aldraða á vegum Garðabæjar.
Ein samfélagsleg heild
„Það var ánægjulegt að koma að stofnun húsfélags fyrir þessi nýju fjölbýlishús á Álftanesinu,“ segir Hallur Guðjónsson, sölufulltrúi hjá Eignaumsjón, en heildarskipulag svæðisins miðar að því að nýja byggðin verði í sem bestu samræmi við umhverfið og taki mið af hugmyndum um Álftanes sem „sveit í borg“.
„Umhverfi er friðsælt og húsin mynda eina samfélagslega heild á sameiginlegri lóð með bílastæðum og bílakjallara, enda eru þau skilgreind sem eitt mannvirki með sjö matshlutum í eignaskiptasamningi. Það lá því beint við að stofna þar deildaskipt heildarhúsfélag fyrir alla matshlutana. Húsfélagið samanstendur af 86 eignarhlutum (84 íbúðir og 2 atvinnubil) sem eiga og lóðina og bílakjallarann sem er með beinu aðgengi inn í öll húsin,“ útskýrir Hallur.
Fjármál og fundir
Húsfélagið var stofnað vorið 2024 þegar byrjað var að afhenda íbúðir í þeim matshlutum sem voru fyrst tilbúnir. Fleiri matshlutar bættust svo við, eftir því sem framkvæmdum miðaði áfram og nú er starfsemi húsfélagsins komin í fulla virkni.
Húsfélagið Lambamýri 1-6 er í þjónustuleið Þ-2 hjá Eignaumsjón. Í því felst m.a. umsjón með fjármálum húsfélagsins, bæði innheimtu og greiðslu reikninga, færslu bókhalds og gerð rekstrar-, efnahags- og ársreikninga. Þjónustuleið Þ-2 felur líka í sér undirbúning aðalfunda með stjórn húsfélags, fundarstjórn og -ritun, ásamt gerð kostnaðar- og húsgjaldaáætlana þar sem rétt skipting húsgjalda samkvæmt lögum um fjöleignarhús er tryggð.
Dec 23, 2024 | Fréttir
Starfsfólk Eignaumsjónar óskar viðskiptavinum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári og þakkar ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða.
Skrifstofa Eignaumsjónar er lokuð á aðfangadag, jóladag og annan í jólum. Föstudaginn 27. desember er skrifstofan opin á milli kl. 9 og 15 og á milli kl. 9 og 16 mánudaginn 30.desember. Lokað er á gamlársdag og nýársdag en frá og með 2. janúar er opið á hefðbundnum skrifstofutíma; milli klukkan 9 og 16 mánudaga til fimmtudaga og milli klukkan 9 og 15 á föstudögum.
Við minnum líka á að hægt er að senda tölvupóst á þjónustuver Eignaumsjónar á netfangið thjonusta@eignaumsjon.is, hafa samband í netspjalli á heimasíðunni, www.eignaumsjon.is, eða hringja á skrifstofutíma í síma 585-4800. Þau sem það kjósa geta líka skilað inn gögnum í póstkassa Eignaumsjónar við inngang á suðurhlið/bakhlið Suðurlandsbrautar 30.
Dec 23, 2024 | Fréttir
Smásöluverð á raforku hefur hækkað umtalsvert, eins og fram hefur komið í fréttum undanfarið, en með samningi sínum við HS Orku getur Eignaumsjón áfram boðið húsfélögum og eigendum séreigna í þeim upp bestu kjör á raforku á markaði.
Smásöluverðið sem stendur viðskiptavinum Eignaumsjónar til boða er í dag 7,96 krónur pr. kwst., sem er það lægsta á almennum markaði. Afsláttarkjör Eignaumsjónar hjá HS Orku gilda um kaup á almennri, óskerðanlegri raforku en ekki um raforkuflutning.
Afsláttarkjör fyrir bæði húsfélög og eigendur fasteigna
Afsláttarkjörin ná til húsfélaga og rekstrarfélaga sem eru í þjónustu hjá Eignaumsjón og einnig standa þessi afsláttarkjör til boða öllum eigendum fasteigna í húsfélögum sem eru í þjónustu hjá Eignaumsjón. Eigendur, eða íbúar í húsfélögum í þjónustu Eignaumsjónar, sem vilja nýta sér afsláttarkjörin geta skráð sig í viðskipti við HS Orku á Húsbókinni, mínum síðum eigenda á www.eignaumsjon.is.
Í ljósi verðhækkana undanfarið á raforku er ljóst að það er enn meiri ávinningur en fyrr fyrir viðskiptavini hjá Eignaumsjón sem nýta sér þessi kjör.
Dec 5, 2024 | Fréttir
Þriðja árið í röð leggur Eignaumsjón jólaaðstoð Mæðrastyrksnefndar lið í stað þess að senda viðskiptavinum jólakort nú fyrir jólin.
Stuðningurinn er sem fyrr eyrnamerktur verkefninu Gefðu poka. Aðstoðin jafngildir að þessu sinni 50 matarpokum, sem er sama tala og fjöldi starfsfólks hjá Eignaumsjón.
Jólaaðstoð Mæðrastyrksnefndar stendur til boða fjölskyldum í höfuðborginni til að létta undir með þeim sem eiga í fjárhagsvandræðum og hjálpa til svo að barnafjölskyldur og aðrir sem á aðstoð þurfa að halda geti átt gleðileg jól. Fyrir þá sem vilja leggja Mæðrastyrksnefnd lið í þessu verkefni er slóðin: https://maedrastyrkur.is/