Eignaumsjón mælir með að eigendur fasteigna í fjölbýlishúsum taki sameiginlega húseigendatryggingu fyrir sameign húsfélagsins, frekar en að hver og einn eigandi sé með slíka tryggingu. Meðal kosta við þetta fyrirkomulag er að áhætta vegna vatnstjóns fellur á einn tryggingartaka, ekki marga og eigendur lenda síður í innbyrðis ágreiningi vegna tjóna í sameign því tryggingin er á höndum eins tryggingafélags.
Húseigendatryggingar kom oftar en ekki til umræðu á aðalfundum og ber þá stundum á því að eigendur fasteigna rugli húseigendatryggingu saman við brunatryggingu eða innbústryggingu. Mikilvægt er að draga skýra línu þar á milli og að tryggt sé að fasteignaeigendur geri sér fulla grein fyrir hvort fasteign viðkomandi er tryggð eða ekki.
Ákvörðun á hús- eða aðalfundi
Á löglega boðuðum hús- og aðalfundum húsfélaga er hægt að taka ákvarðanir um sameiginlega húseigendatryggingu eigenda, oftast kölluð húseigendatrygging eða fasteignatrygging. Ef samþykkt er að taka slíka tryggingu á löglega höldnum húsfundi, skuldbindur það eigendur til þátttöku, en þó eru dæmi þess að í samráði við tryggingafélag sé hægt að draga einstakar eignir tengdir atvinnurekstri út úr sameiginlegri húseigendatryggingu.
Eignaumsjón gætir hagsmuna eigenda varðandi iðgjöld húseigendatrygginga, sem og ef upp koma tjón sem fylgja þarf eftir af hálfu húsfélags. Mikilvægt er að eigendur tilkynni tjón eins fljótt og unnt er til tryggingafélags síns húsfélags, svo hægt sé að bregðast hratt við. Oft þarf líka að staðreyna ýmis atriði, s.s. vindhraða eða úrkomumagn, til að fá úr því skorið hvort tjón fáist bætt eða ekki.
Húseigenda- eða fasteignatryggingar bæta í meginatriðum eftirfarandi:
- Eignatrygging bætir eignatjón á húseigninni sjálfri, t.d. vegna vatns, innbrots, óveðurs o.fl.
- Ábyrgðatrygging bætir skaðabótaskyldu sem falla kann á tryggingartaka, samkvæmt íslenskum lögum og réttarvenjum, sem eiganda húseignar eða húshluta.
- Málskostnaðartrygging/réttargæslutrygging tryggir eigendur sem verða fyrir málshöfðun eða þurfa að sækja rétt sinn með aðstoð lögmanns.
Rétt er að geta að húseigendatryggingar bæta ekki tjón vegna utanaðkomandi vatns, svo sem grunnvatns, úrkomu, flóða, sjávarfalla eða vatns frá svölum, þökum, þakrennum eða frárennslisleiðslum þeirra. Algengast er að það reyni á bætur varðandi tjón af völdum vatns úr leiðslum í sameign eða sameiginlegum leiðslum húseignar, í hlutfalli við eignarhluta vátryggðs í húseigninni.
Hægt er að finna skilmála húseigendatrygginga á heimasíðum tryggingafélaganna.