Nýtt starfsfólk hjá Eignaumsjón
Hulda Sjöfn Kristinsdóttir, Sigurður Lárus Fossberg og Valgerður Ingólfsdóttir komu til starfa hjá Eignaumsjónar fyrr á þessu ári. Hulda Sjöfn er innheimtufulltrúi á fjármálasviði, Sigurður sinnir húsumsjón, ráðgjöf um brunavarnir og fleiri tilfallandi verkefnum á þjónustusviði og Valgerður er bókhaldsfulltrúi á fjármálasviði Eignaumsjónar.
Valgerður er með B.S. próf í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og starfaði sem bókari hjá Truenorth, áður en hún kom til starfa hjá Eignaumsjón. Þar áður vann hún m.a. á fjármálasviði 66°Norður við bókhald, uppgjör og afstemmingar. Valgerður hefur einnig unnið við sölustörf, sem flugliði hjá Icelandair og leiðbeinandi við leikskóla.
Áður en Sigurður hóf störf hjá Eignaumsjón var hann slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður í 35 ár; fyrst hjá Slökkviliði Akureyrar og síðast hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Samhliða slökkviliðsstarfinu hefur Sigurður sinnt ýmiskonar iðnaðarvinnu, akstri og vélavinnu. Hann er með sveinsbréf í málaraiðn og slökkviliðs- og sjúkraflutningsmenntun frá Brunamálaskóla Íslands og Sjúkraflutningaskóla Íslands ásamt viðbótarmenntun í stjórnun og sjúkraflutningum frá Svíþjóð og Bandaríkjunum. Sigurður sat í stjórn Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og í skóla- og fagráði Brunamálaskólans, þar sem hann hefur einnig sinnt kennslu.
Hulda var gjaldkeri hjá Bílaumboðinu Heklu í sex ár, áður en hún kom til starfa hjá Eignaumsjón. Hún hefur einnig unnið sem þjónustu- og innheimtufulltrúi hjá Öryggismiðstöð Íslands og þar áður Tæknivali. Hulda er með stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Hún lærði einnig til sjúkraliða við FB og starfaði við það í rúman áratug á Sjúkrahúsi Reykjavíkur/Landspítalanum Háskólasjúkrahúsi. Hún hefur einnig m.a. lagt stund á tölvunám við Iðnskólann í Reykjavík og tækniteiknun, sem og verkefnastjórn/leiðtogaþjálfun hjá Endurmenntun HÍ.
Um Eignaumsjón
Eignaumsjón býr að 24 ára þekkingu og reynslu í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsnæðis. Félagið þjónar í dag 1.200 hús- og rekstrarfélögum með hátt í 25.000 íbúðum/eignum. Áhersla er lögð á hlutlausa nálgun, öryggi, gæðamál og skýra verkferla til að gera rekstur fasteigna markvissari og ódýrari, auka upplýsingaflæði til eigenda og auðvelda störf stjórna.