Eignaumsjón, sem er leiðandi í faglegri þjónustu við fjöleignarhús á Íslandi, getur nú boðið húsfélögum upp á rekstur og innheimtuþjónustu úr öllum helstu rafbílahleðslukerfum sem eru í notkun hérlendis með sjálfvirkum álestri og gagnsæjum upplýsingum um skiptingu kostnaðar á milli notenda og húsfélags. Jafnframt býður félagið upp á úttektir og ástandsgreiningar fyrir húsfélög sem eru að huga að uppsetningu hleðslukerfa, ásamt öflun samanburðarhæfra tilboða og aðstoð við ákvarðanatöku á löglega boðuðum húsfundi.
Þetta kom fram hjá Páli Þór Ármann, forstöðumanni þjónustusviðs Eignaumsjónar, á hádegisfundi sem félagið hélt á dögunum fyrir formenn og stjórnir húsfélaga sem eru þjónustu hjá félaginu. Aðrir framsögumenn á fundinum voru Tómasar Kristjánssonar, formaður Rafbílasambands Íslands og Leifur Eysteinsson, fyrrum formaður stjórnar lóðar- og bílageymslufélags Álalindar 14-16 í Kópavogi.
Staða hleðslumála var í brennidepli á fundinum en fyrirkomulag hleðslu rafbíla í fjöleignarhúsum, bæði gömlum og nýjum, er meðal verkefna sem stjórnir margra húsfélaga standa enn frammi fyrir þó svo að í sumar verði liðin þrjú ár frá því að lögum um fjöleignarhús var breytt til að liðka fyrir rafbílavæðingu.
Fákeppnismarkaður sem er enn í mótun
Fram kom í erindi Tómasar Kristjánssonar að lagabreytingin árið 2020 hefði ýtt undir fjölgun rafbíla með því að setja skyldur á húsfélög að koma upp rafhleðslukerfum og auðveldað ákvarðanatöku. Hann taldi enn skorta á fræðslu sveitarfélaga og í einhverjum tilfellum aðgerðir, þar sem fjölmörg fjöleignarhús eigi ekki lóðir eða bílastæði, svo unnt sé að koma upp hleðslustöðvum.
Markaður í kringum hleðslukerfi rafbíla á Íslandi er enn í mótun sagði Tómas og hann beri yfirbragð fákeppni í dag, m.a. sé verðlag milli aðila oft ósanngjarnt. Tómas kvaðst þó bjartsýnn á að samkeppni muni aukast eftir því sem rafbílum fjölgi og til lengri tíma litið stuðli það að bættum hag bæði rafbílaeigenda og húsfélaga.
Rafbílakerfið á ábyrgð húsfélagsins
Páll Þór Ármann lagði áherslu á að hleðslukerfi rafbíla í fjöleignarhúsum er hluti af sameiginlegu kerfi hússins og þar með á ábyrgð húsfélagsins. „Mikilvægt er að húsfélög vandi alla ákvarðanatöku og þar getum við lagt stjórnum húsfélaga lið“.
Þjónustan sem er í boði hjá Eignaumsjón vegna rafhleðslu í fjöleignarhúsum er í fyrsta lagi hlutlaus úttekt, eins og lög mæla fyrir um. Henni er fylgt eftir með verðsamanburði sambærilegra kerfa og öflun tilboða fyrir húsfélög sem þess óska, sem húsfundur viðkomandi félags tekur til afgreiðslu og ákvörðunar. Jafnframt býður Eingumsjón nú upp á rekstur, umsjón og eftirlit með rafhleðslukerfum í fjöleignarhúsum. Í boði er sjálfvirkur álestur og innheimta úr helstu hleðslukerfum sem eru í notkun hérlendis, s.s. Faradice, Hleðsluvaktinni, Ískraft(EO), Ísorku, N1, Rafbox og Raflausnum og viðskiptavinir Eignaumsjónar njóta hagstæðasta raforkuverðs á markaði á hverjum tíma. Þá gat Páll þess að hjá húsfélögum í þjónustu hjá Eignaumsjón er notkunin innheimt með húsgjöldunum, sem lækkar kostnað við greiðslumiðlun.
Rafhleðslukerfi eykur virði fasteigna
Fram kom hjá bæði Tómasi og Páli hleðslukerfi rafbíla auki virði fasteigna og Páll benti líka á að við útgáfu húsfélagsyfirlýsinga vegna sölu fasteigna væri nú upplýst hvert fyrirkomulag rafbílahleðslu er í viðkomandi fjöleignarhúsi.
Í lok fundar var sögð reynslusaga úr Álalind 14-16, þar sem sett var upp rafhleðslukerfi fyrir nokkrum árum og gekk á ýmsu. „Ef þær upplýsingarnar sem kynntar voru hér á fundinum hefðu legið fyrir á þeim tíma, hefði okkar barátta verið mun auðveldari, sagði Leifur Eysteinsson, sem var formaður stjórnar lóðar- og bílageymslufélagsins á þeim tíma.
Greinin birtist í Vesturbæjarblaðinu, Nesfréttum og Breiðholtsblaðinu í mars 2023.