Vilji mun vera til þess hjá nýjum meirihluta í Reykjavík að halda áfram að styrkja húsfélög fjölbýlishúsa við uppsetningu hleðslubúnaðar rafbíla.
Samkvæmt heimildum Eignaumsjónar hjá Reykjavíkurborg standa vonir til þess að hægt verði að leggja nýja úthlutunarskilmála fyrir borgarráð til samþykktar eftir sumarfrí í ágúst og þá verði jafnframt tekin ákvörðun um úthlutun meiri fjármuna í verkefnið. Ástæða þess að uppfæra þarf úthlutunarskilmálana mun vera sú að OR ætli ekki lengur að taka þátt í verkefninu. Því er talið viðbúið að lækka þurfi hámarksstyrkupphæðir, sem til þessa hafa verið ein og hálf milljón króna.
„Það er fagnaðarefni að nýi meirihlutinn í Reykjavík ætli að framlengja starfsemi styrktarsjóðsins og tryggja honum fjármagn, segir Bjarni G. Hjarðar, sérfræðingur á fasteignasviði Eignaumsjónar. „Stuðningur sjóðsins hefur skipt sköpum fyrir fjölmörg húsfélög frá því hann var settur á laggirnar árið 2019, létt undir fjármögnun og hraðað ákvarðanatöku og framkvæmdum.“
Smellið á linkinn til að sjá nánari upplýsingar um úttekt og greiðsluþjónustu Eignaumsjónar vegna uppsetningar rafhleðslu: Bílastuð – rafhleðsla og hleðslustöð í fjöleignarhúsum