Fyrsti vetrardagur er á laugardaginn kemur sem, ásamt veðurútlitinu, minnir okkur á að það er tímabært að huga að haust- og vetrarverkefnum húsfélaga.
Tími fyrir samninga um vetrarþjónustu og að stilla ofna
Það kemur okkur alltaf jafn mikið á óvart þegar fer að snjóa og allt situr fast á bílastæðinu hjá okkur af því að það var ekki búið að gera ráðstafanir varðandi snjómokstur! Það er ekki eftir neinu að bíða, núna er tíminn fyrir húsfélög að ganga frá samningum fyrir veturinn um vetrarþjónustu og snjómokstur, með aðstoð þjónustuversins okkar.
Núna þegar kólnar er líka tímabært að huga að ofnum í íbúðum. Við mælum með að hreyfa stilliloka á öllum ofnum upp og niður til að losa um pinnan í þeim, sem á það til að festast ef lokar eru ekki hreyfðir reglulega. Stillið svo hitann á hæfilegt gildi, svona 2-3. Ofnar eiga almennt að vera heitari að ofan en neðan. Skynsamlegt er að tappa lofti af ofnum með þar til gerðum ofnlykli. Ef stillt er á hæsta gildi á ofninn að snarhitna uppi, en vera kaldari að neðan. Ef ofn er mjög heitur að neðan þá er væntanlega sírennsli í gegnum lokann og varmatap, sem þarf að laga með því að skipta um loka eða ventil í honum. Ef þið eruð ekki ánægð með ofnhitann, látið þá vita og við fáum pípara til að líta við hjá ykkur.
Rennu-, niðurfallahreinsun og trjáklippingar
Við höfum minnt á hreinsun þakrenna og niðurfalla fyrr í haust en það sakar ekki að gera það enn og aftur. Núna ættu líka runnar og tré að vera búin af fella laufið og því ekki seinna vænna að taka til hendinni og hreinsa lauf og annað rusl og óhreinindi úr bæði þakrennum og niðurföllum.
Haustið er líka tíminn til að klippa tré og runna og undirbúa flutning á plöntum og trjám, ef þess er þörf. Þjónustuverið okkar leggur húsfélögum sem eru í þjónustu hjá okkur lið við að finna réttu aðilana, bæði í trjáklippingar og lóðahreinsanir og annað það sem gera þarf.
Sendið erindi á thjonusta@eignaumsjon.is eða hringið í síma 585-4800!