Vetur konungur hefur tekið völdin með tilheyrandi verkefnum sem húsfélög þurfa að glíma við.
Snjómokstur bílastæða er eitt þessara verkefna. Fjölmörg húsfélög hafa gert vöktunarsamninga þar sem mokstursaðili vaktar bílastæðið og ryður þegar snjóar. Slíkt getur verið afar hentugt því húsfélagið er tryggt að fá snjómoksturinn þegar á þarf að halda. Það er nefnilega þannig að þó svo að við búum á Íslandi virðist snjórinn sífellt koma okkur á óvart. Þegar snjóar vakna allir upp við að moka þarf planið en þá getur reynst erfitt að fá aðila í slíkt því þeir eru eðlilega drekkhlaðnir verkefnum.
Fjölmörg önnur verkefni koma upp þegar svo mikið snjóar eins og núna. Má þar þó sérstaklega benda á mikilvægi þess að gæta að grýlukertamyndun og hvort hætta geti stafað af. Grýlukertin safnast upp við þakskyggni og rennur og geta þannig skapað mikla hættu þegar þau detta. Jafnframt getur klakamyndun við rennur og niðurföll einnig skapað hugsanlega leka inn undir þakjárnið þegar klakinn hindrar að vatn sem bráðnar af þakinu komist leiðar sinnar.
Nú er kominn desember og það styttist í jólahátíðina og við viljum nota tækifærið og óska öllum ánægjulegrar aðventu.