Töluvert er um fyrirspurnir til okkar um valdheimildir stjórna í húsfélögum vegna þess að ekki hafa enn verið haldnir aðalfundir vegna COVID19-faraldursins. Skal því áréttað að sitjandi stjórnir hafa umboð til að taka ákvarðanir sem snúa að daglegum rekstri og hagsmunagæslu vegna sameignar húsfélags.
Samkvæmt svari frá félagsmálaráðuneytinu til Eignaumsjónar í vor skulu stjórnir húsfélaga sitja áfram þar til hægt verður að halda aðalfundinn en þó ekki lengur en til loka október. Fresturinn til að halda aðalfund var því í raun framlengdur til 31. október, í stað 30. apríl og kjörtímabil stjórnar lengist sem því nemur.
Stjórn hefur ákvörðunarvald um daglegan rekstur
Jafnframt kom fram í svari félagsmálaráðuneytisins að lögum samkvæmt hafi stjórnir húsfélaga umboð til að taka ákvarðanir um daglegan rekstur og hagsmunagæslu vegna sameignar húsfélags. Það eigi m.a. við um minni háttar viðhaldsframkvæmdir og ýmsar aðrar ráðstafanir í rekstri húsfélagsins sem þoli ekki bið. Þar undir fellur t.d. umhirða garðs, bæði hreinsun blómabeða, sláttur og fleira. Einnig umhirða og málun bílastæða, sorphreinsun, þrif og minniháttar viðhald og/eða viðgerðir á sameign. Að sjálfsögðu þarf að gera grein fyrir þessum kostnaði, sem öðrum þegar aðalfundur húsfélags fer fram og taka inn í kostnaðaráætlun. Varðandi aðrar ráðstafanir, s.s. stærri viðhaldsframkvæmdir sem eru verulegar hvað varðar kostnað, umfang og óþægindi, þarf hins vegar að bera undir aðalfund, eða húsfund, samkvæmt svari ráðuneytisins.
Aðalfundum verður lokið fyrir októberlok
Að sjálfsögu er alltaf hægt að efna til húsfunda en það er reynsla okkar hjá Eignaumsjón að erfitt getur verið að tryggja mætingu eigenda á fundi yfir sumarfrístímann. Því er hlé núna á fundarhöldum hjá okkur en hafist verður handa að nýju um miðjan ágústmánuð að halda fundi hjá þeim húsfélögum sem eiga enn eftir að halda aðalfundi. Þeim fundum verður lokið fyrir októberlok, í samræmi við fyrrnefnd svör félagsmálaráðuneytisins um framkvæmd aðalfunda í fjöleignarhúsum vegna COVID19-faraldursins.