Grænni byggð, sem er vettvangur um vistvæna þróun byggðar sem Eignaumsjón hefur gengið til liðs við, stóð í morgun fyrir vel sóttum fundi um Svansvottun bygginga í samstarfi við Umhverfisstofunun.
Svanurinn hefur þróað umhverfisviðmið fyrir byggingar og hafa tvær íslenskar byggingar þegar fengið umhverfisvottun Svansins, fjölbýlishús IKEA og einbýlihús Finns Sveinssonar og Þórdísar Jónu Hrafnkelsdóttur, bæði í Urriðaholti í Garðabæ. Jafnframt er unnið að Svansvottun fleir bygginga hérlendis.
Guðrún Lilja Kristinsdóttir frá Umhverfisstofnun fjallaði almennt um Svaninn og Svansvottun fyrir íslenskar byggingar og sagði einnig frá vinnu Umhverfisstofnunar við að fá Svansvottun á endurbætur sem unnið er að á skrifstofuhúsnæði stofnunarinnar að Suðurlandsbraut 24, sem er í eigu Reita. Þá fór Finnur Sveinsson yfir reynsluna af notkun Svansins, bæði í sínu eigin einbýlishúsi og einnig í IKEA blokkinni sem fékk nýlega Svansvottun. Björn Marteinsson frá Háskóla Íslands fór sérstaklega yfir orkulausnina sem var valin í húsið hans Finns og Þórdísar og Rakel Sif S. Thorarensen, nýútskrifaður byggingartæknifræðingur frá HR, fjallaði um meðferð á byggingarúrgangi, bæði almennt og í samhengi við Svansvottaðar byggingar.
Það er ljóst að það er að mörgu að hyggja í þessum efnum fyrir Íslendinga og ekki eftir neinu að bíða við að koma betri skykk á þessi mál, sem og önnur sem tengjast loftslags- og umhverfismálum. Því er ánægjulegt til þess að vita, eins og fram kom á fundinum, að Grænni byggð, í samstarfi við Mannvirkjastofnun og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, vinnur nú að rannsóknarverkefni um aðlögun erlendra vistvottunarkerfa fyrir byggingar að íslenskum aðstæðum, þar á meðal fyrir Svaninn.