Við erum oft spurð um hvort húsfélög eigi að sjá um viðgerðir séreigna vegna skemmda af völdum utanaðkomandi regnvatnsleka. Því er oft vandsvarað þar sem ákveðin skilyrði þarf að uppfylla og ábyrgð og upplýsingagjöf eiganda kann að hafa þar áhrif.
Kærunefnd húsamála (áður fjöleignarhúsamála) hefur fjallað um nokkur slík mál, en í álitsgerð hennar nr. 34/2009 segir m.a.:
“Um skaðabótaskyldu húsfélags vegna tjóns á séreign gildir 52. gr. laga nr. 26/1994. Þar kemur meðal annars fram að húsfélag beri ábyrgð á sakargrundvelli vegna fjártjóns gagnvart einstökum eigendum og afnotahöfum og stafar af vanrækslu á viðhaldi sameignar, búnaði hennar og lögnum. Í 3. tölul. 1. mgr. 52. gr. er enn fremur sett fram hlutlæg bótaregla vegna bilana á búnaði sameignar og sameiginlegum lögnum. Að auki gilda almennar reglur skaðabótaréttar um skaðabótaskyldu húsfélags, svo sem skilyrði um sannanlegt tjón og skyldu eiganda séreignar til að takmarka tjón sitt. Ákvörðun um fjárhæð bóta fer að reglum skaðabótaréttar og lýtur ekki sérstaklega reglum laga nr. 26/1994. Í ágreiningi þeim sem hér um ræðir er þörf á hefðbundinni sönnunarfærslu, svo sem með matsgjörð, aðila- og vitnaleiðslum, en slík sönnunarfærsla fer ekki fram fyrir nefndinni. Sé ágreiningur um staðreyndir verða aðilar máls að leita úrlausnar dómstóla. Það er því ekki á verksviði kærunefndar að leysa úr ágreiningi aðila, sbr. 1. mgr. 80. gr. laganna.”
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur (18. apríl 2012 í máli nr. E-1491/2011) er staðfest raunveruleg ábyrgð húsfélags gagnvart eiganda, en þar segir m.a.: “Með vísan til alls framangreinds verður að telja það vera vanrækslu af hálfu stefnda að framkvæma ekki viðunandi lagfæringar á sameign í svo langan tíma sem raun ber vitni. Verður það virt stefnda til sakar vegna gáleysis með vísan til ákvæða 1. tölul. 52. gr. laga nr. 26/1994, enda vissi stefndi um viðvarandi lekavandamál í íbúð stefnanda, án þess að grípa til fullnægjandi ráðstafana til að koma í veg fyrir frekara tjón á íbúðinni. “