Ein af meginstoðum rekstrarumsjónar hjá Eignaumsjón er undirbúningur og framkvæmd aðalfunda húsfélaga. Aðalfundir hafa mikla þýðingu í starfsemi hvers félags en þar skal tryggja að málin séu tekin fyrir og til lykta leidd. Hjá sumum félögum er aðalfundurinn eini vettvangur skoðanaskipta og það er mikilvægt að þar fái allar raddir að njóta sín.
Nú fer í hönd tími aðalfunda. Aðalfundur húsfélags skal haldinn ár hvert fyrir lok aprílmánaðar. Til aðalfundar skal stjórnin boða skriflega og með sannanlegum hætti með minnst 8 og mest 20 daga fyrirvara. Í fundarboði skal greina fundartíma, fundarstað og dagskrá. Þá skal geta þeirra mála sem ræða á og meginefni þeirra tillagna sem leggja á fyrir fundinn. Vilji eigandi fá mál tekið fyrir og til atkvæðagreiðslu á aðalfundi skal hann greina stjórn frá því skriflega með þeim fyrirvara að unnt sé að geta þeirra í fundarboði.