Lóan – vorboðinn ljúfi – er komin sem þýðir að tími vorverkanna er runninn upp! Þar má nefna klippingu trjáa og runna, beðahreinsun og áburðargjöf. Stjórnir húsfélaga í þjónustu hjá Eignaumsjón geta leitað til þjónustuversins ef vantar aðstoð við að leita tilboða í trjáklippingar, eða annað sem lítur að vorverkunum.
Mikilvægt er að klára að klippa og snyrta trjágróður áður en gróður fer að bruma og best er auðvitað að fara yfir gróðurinn árlega.
Útboð vegna lóðarvinnu
Það hefur færst í vöxt á undanförum árum, sérstaklega hjá stærri húsfélögum, að bjóða út umsjón með lóð húsfélagsins. Þetta á m.a. við um runna- og trjáklippingar, beðahreinsun, áburðargjöf og garðslátt. Húsfélög, sem vilja fá tilboð í slíka vinnu, ættu að bregðast hratt við því nú er vor í lofti og mörg húsfélög þegar farin að huga framkvæmdum.
Öflun tilboða í lóðarvinnu er innifalin í þjónustuleið 3 hjá Eignaumsjón. Húsfélög í þjónustuleiðum 1 og 2 geta einnig, gegn vægu gjaldi, nýtt sér aðstoð þjónustuvers Eignaumsjónar við öflun slíkra tilboða. Hægt er að hafa samband við þjónustuverið í síma 585-4800 og á netspjalli, eða með því að senda tölvupóst á thjonusta@eignaumsjon.is. Mikilvægt er að þjónustuverið fái greinargóða lýsingu frá stjórnum húsfélaga um þau verk sem vinna skal. Þannig fást samanburðarhæf tilboð og minni líkur eru á að ágreiningur rísi við verklok
Hreinsundardagar í húsfélögum
Hefð er fyrir því í mörgum húsfélögum að eigendur taki sig saman og haldi hreinsunardag á vornin þar sem lóð og bílastæði fjölbýlishússins eru hreinsuð og snyrt eftir veturinn og jafnvel tekið til í geymslum og sameign.
Tímasetning slíkra hreinsunardaga og hvað gera skal er jafnan rædd á aðalfundum viðkomandi húsfélaga en einnig geta stjórnir húsfélaga ákveðið hvenær slíkir hreinsunardagar skuli haldnir. Mikilvægt er að láta eigendur/íbúa vita með góðum fyrirvara. Til að auka líkur á góðri mætingu á hreinsunardaga bjóða mörg húsfélög upp á léttar veitingar, mat og drykk og myndast þá gjarnan vorhátíðarstemming, sem eflir og styrkir samstöðu og samheldni íbúa í viðkomandi húsfélagi!