Skipulagsbreytingar, til að betrumbæta þjónustu við viðskiptvini og mæta nýjum verkefnum og umsvifum, bar hvað hæst á árinu 2023 hjá okkur í Eignaumsjón. Félagið hefur nú umsjón með daglegum rekstri rúmlega 900 hús- og rekstrarfélaga með tæplega 19.300 fasteignum og er leiðandi hérlendis í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög fasteigna.
Við búum yfir víðtækri reynslu og þekkingu í rekstri fjöleignarhúsa eftir hátt í aldarfjórðungs starfsemi. Við leggjum áherslu á hlutlausa nálgun, öryggi, gæðamál og skýra verkferla með það að markmiði að gera rekstur fasteigna markvissari og ódýrari og auðvelda störf stjórna.
Samstilling þjónustu
Samkvæmt nýju skipuriti annast tvö meginsvið þjónustu Eignaumsjónar. Fjármálasvið sem Ágústa Katrín Auðunsdóttir leiðir og þjónustusvið sem nýr forstöðumaður, Gunnþór Steinar Jónsson stýrir. Fjármálasvið annast áfram fjárreiður og bókhald húsfélaga en Þjónustusviði tilheyrir Þjónustuver, Húsumsjón, Fundaumsjón og Ráðgjöf. Jafnframt voru fjögur stoðsvið sett á laggirnar; Atvinnuhús, Sala- og samskipti, Þróunarsvið og Upplýsingatæknisvið.
Markmið með þessum áherslubreytingum er m.a. að samstilla betur alla þjónustu félagsins og efla starfsemina enn frekar, tryggja öryggi upplýsinga og skilvirkni í þjónustu við eigendur fasteigna og stjórnir húsrekstrarfélaga, ýta enn frekar undir þróun þjónustu við fasteignir og efla kynningarstarf og samskipti við viðskiptavini.
Húsbókin mælist vel fyrir
Undanfarin misseri hefur mikil vinna farið í að gera gögn tengd hús- og rekstrarfélögum aðgengileg í Húsbókinni – mínum síðum eigenda. Húsbókin hefur mælst mjög vel fyrir hjá viðskiptavinum okkar og er hún í stöðugri þróun. Breytingar í haust felast m.a. í að greiðendur húsgjalda geta nú veitt öðrum aðgang að upplýsingum tengdum sinni eign. Með þessu er komið til móts við óskir aðstandenda, sem eru að sjá um allskyns samskipti fyrir ættingja í húsfélögum hjá okkur. Þetta á líka að koma sér vel fyrir starfsfólk fyrirtækja og félaga sem eiga fasteignir í húsfélögum hjá okkur, sem og skiptastjóra dánarbúa og erfingja.
Hagkvæmt að greiða hleðslu rafbíla með húsgjöldum
Það hefur líka mælst vel fyrir hjá mörgum húsfélögum, nú þegar hleðsla rafbíla er orðin hluti af húsgjöldum í sameignum húsfélaga, að láta okkur innheimta raforkunotkun með húsgjöldum og hafa þá líka aðgang í Húsbókinni að öllum gögnum og yfirlitum vegna reksturs rafbílahleðslunnar.
Við getum annast rekstur og innheimtuþjónustu úr öllum helstu rafbílahleðslukerfum sem eru í notkun hérlendis. Við erum ekki að selja húsfélögum rafmagn en getum tryggt að viðskiptavinir okkar njóti hagstæðasta raforkuverðs á markaði á hverjum tíma og að allar greiðslur og rukkanir berist til réttra viðtakenda og þá lækkar líka kostnaður við greiðslumiðlun. Einnig höfum við unnið fjölda úttekta og ástandsgreininga fyrir húsfélög sem eru að huga að uppsetningu hleðslukerfa og aflað samanburðarhæfra tilboða og aðstoðað við ákvarðanatöku á löglega boðuðum húsfundum.
Vel sóttir fundir og viðurkenningar
Rúmlega 900 fundir hafa verið haldnir á þessi ári með hús- og rekstrarfélögum, þar af 623 aðalfundir og gengu fundarhöld almennt vel. Annasöm aðalfundatíð er fram undan strax í ársbyrjun, undirbúningur er langt kominn og tilhlökkun hjá okkur að takast á við þetta krefjandi verkefni.
Nýung í starfsemi okkar eru hádegisfundir með stjórnum hús- og rekstrarfélaga sem eru í þjónustu hjá okkur hófust haustið 2022 og hafa þeir verið vel sóttir. Fyrsti fundur ársins 2023 var í febrúarbyrjun um rafbíla og fjöleignarhús. Á vorfundi fyrir stjórnir og skoðunarfólk reikninga var farið yfir skyldur og verkefni hússtjórna og á haustfundi í október var viðhaldsþörf fjölbýlishúsa og undirbúningur viðhaldsverkefna í brennidepli.
Þriðja árið í röð vorum við í hópi fyrirtækja sem eru á lista Viðskiptablaðsins og Keldunnar yfir fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri. Þá vorum við öðru sinni í hópi 15 meðalstórra fyrirmyndarfyrirtækja VR og fengum líka öðru sinni útnefningu HR Monitor sem mannauðshugsandi fyrirtæki 2023. Loks má nefna að við öðluðumst jafnlaunastaðfestingu Jafnréttisstofu á árinu, sem er staðfesting á því að launakerfi fyrirtækisins og framkvæmd þess feli ekki í sér kynbundna mismunun.
Bjart fram undan
Þróttmikill vöxtur hefur verið í starfsemi Eignaumsjónar undanfarin ár og góður stígandi í rekstrinum. Margar glæsilegar nýjar fasteignir með stórum deildaskiptum heildarhúsfélögum hafa bæst í viðskiptavinahópinn á árinu og þar ætlum við að halda áfram á sömu braut á komandi ári. Við ætlum líka að styrkja þjónustu við eigendur atvinnuhúsnæðis, þar sem við getum bæði tekið að okkur rekstur fasteigna, framkvæmdastjórn og alla daglega umsjón.
Við horfum björtum augum til framtíðar. Fjárhagsleg staða okkar er styrk og fyrirtækið er með starfsábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu tryggingarfélagi. Þá höfum við farið í gegnum fjármálaúttektir, enda erum við að höndla með mikla fjármundi fyrir hönd þessara rúmlega 900 hús- og rekstrarfélaga sem eru í þjónustu hjá okkur.
Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar, fór yfir það sem hæst bar í starfsemi Eignaumsjónar á árinu sem er að líða í SÓKNARFÆRI, kynnignarblaði um frumkvæði og fagmennsku í íslensku atvinnulífi.