Jun 26, 2023 | Fréttir
RÚV greinir frá því í dag að Orkustofnun telji mæla í hleðslustöðvum Orku náttúrunnar standast kröfur og því hafi langvarandi réttaróvissu verið eytt um hvaða kröfur sölumælar í hleðslustöðvum skuli uppfylla, í það minnsta í bili.
Forsaga málsin er að fyrirtækið Ísorka, sem selur hleðslulausnir, kvartaði formlega til Orkustofnunar og óskaði eftir að stofnunin rannsakaði búnað hleðslustöðva sem samkeppnisaðili þess, Orka náttúrunnar, notar. Taldi Ísorka að mælar í hleðslustöðvum þyrftu að hafa svokallaða gerðarviðurkenningu, samkvæmt evrópskum stöðlum.
Krafa um gerðarviðurkenningu tekur bara til mælabúnaðar í dreifiveitum
Orkustofnun tók í fyrstu undir túlkun Ísorku og spurningar vöknuðu um hvort stór hluti hleðslustöðva á íslandi kynni að vera ólöglegur en samkvæmt frétt RÚV hefur Orkustofnun nú komist að þeirri niðurstöðu að mælar ON uppfylli lög. Er það mat stofnunarinnar að kröfur um gerðarviðurkenningu taki einungis til mælabúnaðar í dreifiveitum og ekki sé þörf á að mælibúnaður í hleðslustöðvum þjónustuveitenda uppfylli umræddar kröfur.
Bent er á í lok fréttar RÚV að ákvörðun Orkustofnunar megi kæra til úrskurðarnefndar raforkumála og að kærufrestur er 30 dagar. Nánar má lesa um niðurstöðu Orkustofnunar hér.
Apr 28, 2022 | Fréttir
Niðurstöður verðkannana sem Eignaumsjón hefur gert vegna uppsetningar hleðslukerfa rafbíla fyrir húsfélög sýna að meðalkostnaður við gott rafhleðslukerfi, bæði fyrir bílastæði í séreign og sameign, er um 100 þúsund krónur á hverja eign og fer heldur lækkandi.
Eignaumsjón hefur gert fjölda úttekta fyrir húsfélög vegna skyldu þeirra til að bregðast við beiðnum um aðgengi að hleðslukerfi fjöleignarhúss, í samræmi við nýleg ákvæði fjöleignarhúsalaganna.
Í framhaldi af úttektunum hafa sérfræðingar Eignaumsjónar aðstoðað stjórnir húsfélaga, sem þess hafa óskað, við að útvega tilboð miðað við fyrirliggjandi verkáætlanir. Samanburður á 12 nýlegum tilboðum okkar sýnir að næst hagstæðustu tilboðin í rafhleðslukerfi húsfélaga eru að meðaltali um 27% hærri en hagstæðustu tilboðin, eins og sjá má í meðfylgjandi stöplariti.
Samanburðurinn leiðir einnig í ljós að meðalkostnaður við gott rafhleðslukerfi, fyrir bæði bílastæði í séreign og sameign, er um 100 þúsund krónur á hverja eign og fer heldur lækkandi. Í fjöleignarhúsi sem telur 36 íbúðir er munurinn á lægsta og næst lægsta tilboði um ein milljón króna, auk þess sem úttekt og tilboð byggð á úttektinni eiga að tryggja að rafhleðslukerfi hússins virki til framtíðar, eins og önnur kerfi þess.
Til viðbótar við úttektir og verðkannanir/útvegun tilboða, er haldið utan um styrkumsóknir til sveitarfélaga (Reykjavík og fleiri sveitarfélög) hjá Eignaumsjón.
Nánari upplýsingar um þjónustu Eignaumsjónar vegna rafhleðslukerfa í fjöleignarhúsum og reksturs þeirra má finna hér.