Tími haustverkanna að renna upp!
Þótt enn sé bara síðsumar og ágúst á dagatalinu var klár haustbragur á lægðinni sem er nýgengin yfir með tilheyrandi vindi og úrkomu. Það minnir okkur líka á að tími haustverkanna er að renna upp!
Eftir einstaklega sólríkt sumar á höfuðborgarsvæðinu og suðvesturhorni landsins er nú kominn tími til að huga að öruggum frágangi á útihúsgögnum og stórum útleikföngum, s.s. trampólínum, áður en haustlægðirnar mæta fyrir alvöru með tilheyrandi roki og vatnsveðrum.
Gróður er líka búinn að vera í miklum blóma í sumar og því viljum við líka minna stjórnir húsfélaga á að huga að eftirliti og hreinsun á þakrennum og niðurföllum, svo tryggt sé að laufblöð, drulla eða annað sé ekki að valda stíflum eða leka.
Öll hús veðrast, jafnt ný sem eldri og rétt að árétta að þurrkatíðin í sumar gæti haft í för með sér að vatn ætti greiðari aðgang inn í ytra byrði og glugga með tilheyrandi leka, þegar haustrigningatíminn hefst fyrir alvöru. Það er mikilvægt að þá sé strax brugðist við og gripið til aðgerða til að lágmarka hugsanlegt tjón.