„Það er ekkert algilt svar þegar spurt er hvenær eigi að byrja að huga að viðhaldi fasteigna en það er reynsla okkar hjá Eignumsjón, sem höfum yfir 20 ára þekkingu og reynslu í þessum efnum, að haustið sé kjörinn tími til að byrja að huga að viðhaldsframkvæmdum næsta sumars,“ segir Halla Mjöll Stefánsdóttir, ráðgjafi á þjónustusviði Eignaumsjónar, í viðtali sem birtist á dögnuum í blaðinu Sóknarfæri.
Undirbúningur og ákvarðanir um stærri viðhaldsframkvæmdir hjá húsfélögum taka alla jafnan nokkurn tíma. Eigendur þurfa bæði að vega og meta viðhaldsþörf, forgangsröðun og eigin fjárhagsgetu og þar eru gott samráð og húsfundir lykill að farsælli niðurstöðu. Oftar en ekki þarf að halda nokkra húsfundi, áður en endanleg niðurstaða og ákvörðun liggur fyrir.
Horfum til lengri tíma
„Íslenska aðferðin hefur lengi verið sú að bíða með viðhald og viðgerðir þar til í óefni er komið, með tilheyrandi aukakostnaði. Við höfum gjarnan bent þeim húsfélögum sem eru í þjónustu hjá okkur að huga fyrr að framkvæmdum og safna jafnvel innleggi í framkvæmdasjóð til að lækka innheimtur á eigendur þegar að framkvæmdum er komið. Vissulega reynir á eigendur þar sem ríkja þarf samhugur í þeim efnum,“ segir Halla.
„Við ráðleggjum húsfélögum sem stefna á umfangsmeiri viðhaldsframkvæmdir að boða til löglegs fundar með eigendum þar sem ástand eignar og viðhald næstu ára er fundarefnið. Fyrsta skrefið er að veita stjórn heimild til að ráða fagaðila til að gera ástandsskýrslu ásamt kostnaðarmati vegna viðgerða. Þær niðurstöður þarf síðan að kynna á öðrum húsfundi og taka þar ákvörðun um forgang viðhaldsverkefna og veita stjórn heimild til að afla tilboða í verkið. Tilboð sem berast eru svo kynnt á þriðja húsfundinum, með sundurliðun á aðgerðum og kostnaði. Næsta skref er svo að taka ákvörðun, annað hvort á sama húsfundi eða sérstökum fundi, um hvaða tilboði skuli taka og semja svo í framhaldinu við verktakann sem á tilboðið sem tekið er.“
Betri yfirsýn yfir rekstur og kostnað
Að lokum áréttar Halla að Eignaumsjón leggi að sjálfsögðu húsfélögum sem eru í þjónustu hjá félaginu lið, bæði við boðun funda, undirbúning viðhaldsframkvæmda og öflun tilboða í ástandsmat vegna slíkra framkvæmda frá fagaðilum.