Styttist í lok átaksins ALLIR VINNA
Átakið ALLIR VINNA, sem var hluti af aðgerðapakka stjórnvalda árið 2020 vegna áhrifa COVID-19 á efnahagslífið, er á lokametrunum. Það fólst m.a. í 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu iðnaðar- og verkamanna við byggingu og viðhald íbúðarhúsnæðis og fleiru.
Upphaflega átti átakinu að ljúka um síðustu áramót en var þá framlengt fram á þetta ár en mislengi þó eftir verkþáttum.
Ívilnanir í gildi til ágústloka vegna íbúðarhúsnæðis
Þannig var full endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu iðnaðar- og verkamanna, á byggingarstað við nýbyggingu, viðhald og endurbætur íbúðarhúsnæðis, framlengd til loka ágústmánaðar á þessu ári. Eftir það, eða frá 1. september nk., skal endurgreiðslan miðast við 60% eins og áður var. Húsfélög og aðrir, sem eru í framkvæmdum og ætla sér að fá 100% vsk-endurgreiðslu af ofangreindum framkvæmdum, hafa því nú rúman mánuð til stefnu áður en gildistími ívilnunarinnar rennur út!
Eignaumsjón sér um að sækja um VSK-endurgreiðslur til skattsins fyrir húsfélög og aðra viðskiptavini félagsins, samkvæmt greiddum reikningum sem þurfa að vera dagsettir 31. ágúst á þessu ári eða fyrr, til að full endurgreiðsla fáist.
Aðrar ívilnanir féllu niður í júnílok
Aðrar ívilnanir um endurgreiðslu virðisaukaskatts, sem voru framlengdar um síðustu áramót, féllu hins vegar niður í júnílok. Þar var annars vegar um að ræða fulla endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við hönnun og eftirlit, viðhald og endurbætur frístundahúsnæðis og húsnæðis í eigu sveitarfélaga og hins vegar vinnu vegna heimilisaðstoðar og reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis, þ.e. sóttvarna og þrifa vegna COVID-19.
Gildistími ofnagreindra ívilnana var til og með 30. júní 2022. Að sjálfsögðu sér Eignaumsjón líka um að sækja um vsk-endurgreiðslur til skattsins af þessum þáttum fyrir húsfélög og aðra viðskiptavini félagsins samkvæmt greiddum reikningum, dagsettum fyrir júnílok á þessu ári.