Flokka byggingarúrgang og búa til moltu á byggingarstað
Við Áshamar 42-48 í Hamraneshverfinu í Hafnarfirði hefur Eignaumsjón nýlega stofnað deildaskipt heildarhúsfélag þar sem verða alls 79 íbúðir og eitt atvinnubil í fjórum byggingum á sameiginlegum bílakjallara. Þar eru 60 bílastæði og geta íbúar leigt stæði en einnig fylgja stæði nokkrum stærri íbúðum. Þegar er búið að afhenda hátt í fimmtu íbúðir í Áshamri 44 og 46 og er starfsemi húsfélagsins hafin fyrir þær deildir. Þá er gert ráð fyrir að íbúðir í Áshamri 48 verði afhentar í haust og í Áshamri 42 í lok ársins.
Það er byggingarfélagið Hamravellir ehf. sem er lóðarhafi og annast framkvæmdir við Áshamar 42-48. Félagið er í eigu fyrirtækjanna Verklands ehf., sem er aðalverktaki framkvæmda og Trefja ehf. Í stjórn eru smiðirnir Ingi Ljóts og Gísli Johnsen, eigendur Verklands og bræðrunum Óskar og Þröstur Auðunssynir, eigendur Trefja.
Svansvottaðar byggingar
„Við leggjum áherslu á að skila byggingum í hæsta gæðaflokki og setjum jafnframt öryggi starfsfólks og umgengni á byggingarstað í fyrsta sæti,“ sagði Ingi, þegar að sölumenn Eignaumsjónar skoðuðu framkvæmdasvæðið á dögunum í tengslum við stofnun húsfélagsins. Byggingarnar eru í Svansvottunarferli og við hönnun þeirra var m.a. horft til þess að lágmarka orkunotkun og tryggja góða hljóðvist og hagkvæma nýtingu dagsbirtu.
Markviss flokkun og förgun
„Svansvottunarferlið kallar líka á markvissa minnkun umhverfisáhrifa af framkvæmdunum, með áherslu á hringrásarhagkerfið og flokkun úrgangs,“ sagði Þröstur. Því var komið upp flokkunaraðstöðu í sameiginlegum bílakjallara bygginganna þar sem afgangar af byggingarefni hafa verið flokkaðir jöfnum höndum, s.s. allskonar tegundir af plasti, umbúðir utan af innréttingum og eldhústækjum o.fl.
„Flokkunarhlutfallið á verktímanum er á bilinu 98-99%, sem er mjög góður árangur að okkar mati,“ sagði Ingi og Þröstur bætti við að vissulega tæki þetta tíma og kallaði á töluverða vinnu. „Á móti hafa sparast umtalsverðir fjármunir og við gátum t.d. fækkað gámum fyrir blandaðan úrgang hér á byggingarstaðnum úr sex gámum niður í tvo, með tilheyrandi sparnaði í losunarkostnaði.“
Búa líka til moltu
En þar með er ekki öll sagan sögð, því í bílakjallaranum er einnig búin til molta. „Það fellur til umtalsvert magn af lífrænum úrgangi hér á vinnusvæðinu, ekki síst matarleifar frá starfsfólkinu okkar og fleira. Því gripum við til þess ráðs að koma okkur upp búnaði til moltugerðar, sem við notum svo hér á lóðinni í blómabeð og fleira,“ sagði Ingi að lokum.
Þjónusta Eignaumsjónar
Húsfélagið Áshamar 42-48 er í þjónustuleið Þ-2 hjá Eignaumsjón, sem felur í sér umsjón með fjármálum, bókhaldi og gerð ársreiknings, ásamt undirbúningi og framkvæmd aðalfundar. Húsfélagið nýtir sér einnig Húsumsjón Eignaumsjónar, sem felur í sér reglubundna umsjón með sameign húsfélagsins þannig að ásýnd viðkomandi fasteignar verði ávallt eins og best er á kosið.