Eignaumsjón annast bæði húsumsjón og rekstur þriggja stórra húsfélaga í fjölbýlishúsum við Efstaleitið sem Byggingarfélagið Skuggi hefur nýlega lokið við að reisa á þéttingarreitnum í kringum Útvarpshúsið. Alls voru byggðar þar 360 íbúðir og þegar kom að sölu íbúða í hverjum byggingaráfanga var Eignaumsjón fengin til að stofna húsfélögin og koma þeim í rekstur.
„Það er okkar reynsla að fólki, sem er að kaupa íbúðir í nýjum fjölbýlishúsum, finnst það mikill kostur og þægindi ef búið er að koma á stofn húsfélagi þegar það flytur inn og það finnst okkur líka,“ segir Kristjana Lind Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Skugga. Þannig sé tryggt að festa komist strax á starfsemi húsfélagsins.
„Kostnaðarskipting og rekstraráætlun liggja þá fyrir og strax hefst innheimta húsgjalda í takt við þær áætlanir. Við greiðum þá í hússjóð fyrir þær eignir sem er ekki búið að selja, sem tryggir að rekstur húsfélagsins er ekki að byrja í mínus. Þegar svo allar íbúðir hafa verið seldar og afhentar og fólk er flutt inn, hafa þau hjá Eignaumsjón boðað til aðalfundar þar sem íbúar taka við stjórn húsfélagsins, ný stjórn er kosin og húsreglur eða annað er snýr að starfsemi húsfélagsins lagfært, ef þurfa þykir.“
Klára málin frá A-Ö
Eignaumsjón hefur boðið upp á heildaþjónustu við stofnun húsfélaga í nýbyggingum í fjölmörg ár. Sótt er um kennitölu, farið yfir allar kostnaðarskiptingar út frá eignaskiptasamningi, settur upp rammi fyrir bæði húsgjöld og rekstur húsfélagsins og húsreglur, komið á samningum um tryggingar fyrir sameign og annað það sem gera þarf til að rekstur húsfélagsins gangi sem best.
„Ég hef alltaf átt mjög góð viðskipti við Eignaumsjón sem hefur alfarið séð um að stofna fyrir okkur húsfélög í þeim fjölbýlishúsum sem við höfum byggt. Allt utanumhald er sérlega gott. Þau klára málin alveg frá A til Ö og taka líka föstum tökum bæði samskipti og greiðslufyrirkomulag fyrir allskonar þjónustu sem fylgir svona stórum byggingum og koma með lausnir hvernig best er að leysa málin, s.s. varðandi sorp eða djúpgáma og margt fleira.“
Ánægð með Eignaumsjón
Aðspurð, segir Kristjana að þetta fyrirkomulag sem Eignaumsjón bjóði upp á við stofnun húsfélaga í nýbyggingum hafi reynst mjög vel hjá Skugga og íbúar almennt mjög ánægðir. Í Efstaleitinu hefur byggingarfélagið einnig verið að nýta sér húsvarðaþjónustu, eða húsumsjón, sem Eignaumsjón býður upp á. Þá er fylgst reglulega með öllu sem snýr að sameign húsfélagsins til að tryggja að umhirða, umgengi og allur tæknibúnaður hússins sé í standi.
„Þetta hefur bara verið algerlega áhyggjulaust fyrir mig og mér finnst það alveg þess virði að kaupa þessa þjónustu, til að tryggja að þessi mál séu í lagi þegar við erum að afhenda eignir í nýjum húsum. Ég er bara mjög ánægð með Eignaumsjón, enda nýttum við okkur líka þjónustu félagsins í Skugga, stóru fjölbýlishúsunum sem við byggðum við Skúlagötu og einnig í minna verkefni við Lindargötu,“ segir Kristjana Lind Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Skugga, að lokum.