Útlit er fyrir hvassviðri næstu daga og úrkomu og svo áframhaldandi lægðagang í kringum landið í næstu viku samkvæmt spá Veðurstofunnar, sem minnir á að tími haustverkanna er runninn upp.
Fastur liður á haustin er að huga að frágangi á lausamunum, s.s. útihúsgögnum, grillum og stórum leikföngum eins og trampolínum. Húsfélög sem eru ekki þegar búin að ganga frá þessum hlutum hjá sér ættu að drífa í því sem allra fyrst áður en haustlægðirnar mæta fyrir alvöru, með tilheyrandi roki og vatnsveðrum.
Gróður er enn í töluverðum blóma en ef að líkum lætur styttist í að tré og runnar felli lauf. Því viljum við líka minna stjórnir húsfélaga á að huga að eftirliti og hreinsun á þakrennum og niðurföllum, svo tryggt sé að laufblöð, drulla eða annað sé ekki að valda stíflum eða leka.
Er miðstöðvarkerfið með „haustveiki“?
Þá kann að vera að „haustveiki“ herji á miðstöðvarkerfi húsa, þar sem þrýstijafnarar kunna að vera fastir. Þá þarf að grípa til aðgerða til að tryggja að miðstöðvarkerfi hússins virki eðlilega. Eins kann að vera að hitastillar á ofnum séu fastir, t.d. eiga pinnar það til að festast og þarf þá að losa þá og liðka upp, svo stillikranar virki eins og þeir eiga að gera.
Þegar haustrigningatíminn hefst er líka alltaf viðbúið að vatn komist inn í ytra byrði húsa og glugga með tilheyrandi leka. Ef slíka staða kemur upp er mikilvægt að bregðast strax við og grípa til viðeigandi aðgerða til að lágmarka hugsanlegt tjón.
Eru samningar um hálkuvarnir og snjómokstur klárir?
Loks er ekki úr vegi að minna formenn og stjórnir húsfélaga á að huga tímanlega að samningum um hálkuvarnir og snjómokstur, ef slíkir samningar eru ekki fyrirliggjandi við þjónustufyrirtæki. Það er reynsla okkar að allt of margir vakni upp við vondan draum þegar byrjar að snjóa og ekki næst í neina verktaka til að hreinsa bílaplön og innkeyrslur, þó við vonum að sjálfsögðu að enn sé langt þar til Vetur konungur fari að sína sig!
Ef leggja þarf húsfélögum lið við að leita að iðnaðarmönnum eða þjónustuaðilum er að sjálfsögðu hægt að senda þjónustuverinu okkar tölvupóst á netfangið thjonusta@eignaumsjon.is, hringja í síma 585-4800 á skrifstofutíma eða vera í sambandi í netspjalli á www.eignaumsjon.is.