Húsfélög sem standa í framkvæmdum hafa fjármagnað þær með mismunandi hætti. Hér áður fyrr var algengast að tekið væri framkvæmdalán fyrir stærstum hluta verksins. Lánið var tekið hjá viðskiptabanka húsfélagsins með samþykki og undirritun meirihluta félagsmanna þ.e. eigenda sem síðan voru rukkaðir til að mæta afborgunum þess. Flestir nýttu sér þessa fjármögnun en vitaskuld greiddu einhverjir sinn hlut í framkvæmdinni strax.
Þetta hefur breyst.
Í dag eru flestar framkvæmdir fjármagnaðar með beinum greiðslum frá eigendum í hússjóð og er algengt að greiðslum sé skipt í 3 til 6 hluti á nokkra mánuði.
Ástæðurnar fyrir því að húsfélögin taka ekki lengur lán eru vafalaust margar en eflaust valda þar mestu aukin efni sumra einstaklinga, aukin þjónusta banka og e.t.v. minni samhygð og samstaða borgaranna í samfélaginu.
Þeir sem þurfa að taka lán fyrir framkvæmdakostnaði hafa nokkur úrræði til að fjármagna sinn hlut. Helstu lánastofnanir eru: Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir, viðskiptabankar og sparisjóðir. Ræðst afgreiðslan vitanlega af aðstæðum hvers og eins.