Nú er kominn sá árstími að fólk vill skreyta heimili sín og umhverfi og því ekki úr vegi að minna á ákvæði sem er víða í húsreglum húsfélaga og banna eigendum og/eða íbúum húsfélaga að taka rými í sameign húsfélagsins til sinna einkanota.
Þetta geta bæði átt við tímabundnar skreytingar í sameign sem og húsbúnað eða aðra muni sem staðsettir eru ótímabundið í sameign, t.d. eins og þessi fatahengi sem sjá má á meðfylgjandi myndum, en samkvæmt fjöleignarhúsalögunum er slík notkun á sameign hússins algerlega bönnuð, sbr. 36 gr. laganna:
„Eiganda er á eigin spýtur óheimilt að framkvæma nokkrar breytingar á sameign eða helga sér til einkanota tiltekna hluta hennar. Eigandi getur ekki öðlast sérstakan rétt til sameignar á grundvelli hefðar, hvorki eignarrétt né aukinn afnotarétt.“
Hugum að umgengni og tryggjum flóttaleiðir
Í húsreglum margra húsfélaga er enn fremur áréttað að ekki megi stilla upp húsgögnum eða örðu því í sameign sem valdið geti örðum íbúum óþægindum eða skapað hættuástand. Þetta geta verið hlutir eins og reiðhjól, barnavagnar og skófatnaður við íbúðadyr á stigapöllum í sameign.
Algengt er enn fremur í húsreglum að árétta bann við að bora, negla eða hengja muni upp á veggi í sameign, enda geta slíkir munir á veggjum sem og á göngum í sameign valdið viðbragðaðilum, s.s. slökkviliði og sjúkraflutningamönnum, vandkvæðum ef upp koma neyðartilvik.
Í reykfylltu rými þurfa t.d. slökkviliðsmenn að fikra sig áfram með veggjum og geta þá litlir hlutir, s.s skógrindur, myndir á veggjum og fleira, valdið þeim óþægindum og jafnvel aukið á slysahættu. Þá má búast við að umgengni af þessu tagi geti líka valdið þjónustuaðilum viðkomandi húsa, s.s. þeim sem sinna ræstingum, óþarfa óþægindum.
Að lokum bara þessi skilaboð frá Húsumsjónarmönnunum okkar: Höfum eldvarnir í lagi og stillum ekki upp óþarfahlutum í flóttaleiðir!