Eignaumsjón fagnar því framtaki Reykjavíkurborgar og OR að stofna 120 milljóna króna sjóð sem úthlutað verður úr til húsfélaga fjöleignahúsa sem hafa sett upp hleðslubúnað fyrir rafbíla á sínum lóðum.
Tilkynnt var um stofnun sjóðsins á ársfundi OR í gær, samhliða áformum um stórfellda uppbyggingu innviða í borginni fyrir rafbílaeigendur næstu þrjú árin og fela í sér að koma upp 90 hleðslustöðvum víðsvegar um borgina.
Hámarksstyrkur 1,5 milljónir króna
Jafnframt munu OR og Reykjavíkurborg saman leggja til 40 milljónir króna árlega í þrjú ár í sérstakan sjóð sem úthluta mun styrkjum til húsfélaga íbúðarhúsa sem koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla. Gert er ráð fyrir að hámarksstyrkur til húsfélags nemi 1,5 milljónum króna og verði að hámarki 2/3 hlutar kostnaðar við að koma hleðslum upp við viðkomandi fjölbýlishús. Auglýst verður eftir umsóknum á næstunni og úthlutunarreglur kynnar betur, að því er segir í frétt á heimasíðu OR og þar kemur jafnframt fram að OR og veitur séu einnig tilbúin til samsvarandi samstarfs við önnur sveitarfélög á starfssvæði fyrirtækjanna.
„Þessi ákvörðun borgarinnar og OR er mikið fagnaðarefni. Hleðslumál rafbíla í fjöleignarhúsum eru og hafa verið okkur hugleikin undanfarin misseri og eru oftar en ekki til umræðu á aðalfundum húsfélaga,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.
Að mörgu að hyggja
„Fram til þessa hafa rafbílaeigendur yfirleitt leyst hleðslumálin í samráði við hússtjórnir, s.s. með sérkostnaðarmæli eða greiðslu fyrir áætlaða rafmagnsnotkun sameignar, en það hefur blasað við með stóraukinni fjölgun rafbíla að koma verður betra skikki á fyrirkomulag þessara mála. Við höfum ráðlagt stjórnum húsfélaga að hefjast strax handa við upplýsingaöflun, til að reyna að sjá fyrir þróun þessara mála og gera alla ákvarðanatöku markvissari,“ segir Daníel og bætir við að lykilatriði sem huga þurfi að séu þessi: Hversu margir íbúar í fjölbýlishúsinu hyggjast koma sér upp rafbíl og dugar flutningsgeta heimtaugar hússins til að anna áætluðum fjölda rafmagnsbíla? Þá þurfi eigendur í fjöleignarhúsi með bílastæðum í óskiptri sameign að ákveða hvort þeir vilji taka frá ákveðin bílastæði og setja upp hleðslustöð við þau á vegum húsfélagsins og eins sé líklegt að einhverjir eigendur vilji setja upp eigin hleðslustöð eða tengil fyrir rafbíl ef bílastæði við hús/bílageymslu eru svokölluð sérafnotastæði. Bendir framkvæmdastjóri Eignaumsjónar enn fremur á að hérlendis sé húsfélögum ekki skylt að úthluta sérstökum bílastæðum undir hleðslu rafbíla en hins vegar þurfi, skv. lögum um fjöleignarhús, samþykki allra eigenda til að slík ráðstöfun bílastæða í óskiptri eign allra eigenda teljist lögleg.
„Það hefur ekki reynt á hvort þarna verður vikið frá en verið er að endurskoða þetta ákvæði laganna. Jafnframt þarf að þinglýsa slíkri ákvörðun húsfundar, eða nýrri eignaskiptayfirlýsingu, til að lögmæti hennar sé tryggt,“ segir Daníel og bætir við að það sé því að ýmsu að hyggja varðandi fjöleignarhús og rafbíla, eins og sjá megi af þessari stuttu upptalningu hér að framan.
Mjög jákvætt skref
„Þessi styrktarsjóður borgarinnar og OR er mjög jákvætt skref í þessum málum og ástæða til að hvetja forsvarsmenn húsfélaga sem hyggjast koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla á sínum lóðum, eða eru byrjaðir, að fylgjast vel með frekari upplýsingum um sjóðinn og umsóknarferlið. Enn fremur viljum við árétta við útfærslu þessara mála leiti húsfélögin til fagaðila, til að tryggja að framkvæmdirnar uppfylli kröfur byggingaryfirvalda um útfærslu raflagna og að fjárfest sé í traustum og góðum hleðslubúnaði.“