Eignaumsjón kom nýlega að stofnun og rekstri deildaskipts húsfélags fyrir Jöfursbás 7A, 7B og 7C, þar sem er verið að ljúka við byggingu 73 íbúða á vegum Fasteignaþróunarfélagsins Spildu. Þegar er flutt inn í hluta íbúðanna.
„Þrjú hús, fimm til sex hæða há, standa á lóðinni en undir þeim er sameignlegur bílakjallari og því fór best á því að okkar mati að stofna þarna eitt deildaskipt húsfélag, enda um eitt mannvirki að ræða samkvæmt eignaskiptalýsingu,“ segir Páll Þór Ármann, sérfræðingur hjá Eignaumsjón í sölu- og samskiptum.
Aukin samstaða og samheldni
„Það er líka reynsla okkar að eitt deildaskipt heildarfélag í stærri fjöleignarhúsum skapar aukna samstöðu og samheldni, tryggir betra jafnvægi í rekstri til lengri tíma, tryggir samræmt utanumhald eigna og auðveldar hagræðingu, bæði í innheimtu, öflun þjónustu og fleiru. Stjórnun húsfélagsins verður líka styrkari með eina stjórn, skipaða fulltrúum úr öllum deildum húsfélagsins, í stað þess að mörg félög og margar stjórnir komi að málum,“ segir Páll, sem séð hefur um stofnun og innleiðingu nýrra húsfélaga hjá Eignaumsjón til fjölda ára.
Mikil gerjun í Gufunesi
Mikil uppbygging á sér nú stað í Gufunesi sem er nýtt hverfi í Grafarvogi, fjölmennasta borgarhluta Reykjavíkur. Helstu innviðir, s.s. leikskólar, skólar og dagvöruverslanir eru þegar fyrir hendi í Grafarvogi en fram hefur komið að úrbóta er t.d. þörf í almenningssamgöngum.
Nýlega tók til starfa í Gufunesi sérstakt framfarafélag íbúa, samstarfsvettvang hagaðila um uppbyggingu og framfarir í hverfinu, sjá nánar hér: https://www.facebook.com/framfaragufunes.
Lesa má nánar um uppbyggingarverkefni Spildu í Gufunesi á vefsíðunni www.gufunesid.is.