Húsfélögum ber að greiða allan kostnað sem hlýst af viðgerðum vegna bilaðra lagna samkvæmt úrskurði Kærunefndar húsamála frá í fyrra.
Vegna ágreinings um skiptingu kostnaðar vegna tjóns í 24 íbúða húsfélagi leitaði íbúðareigandi á 1. hæð til nefndarinnar. Um var að ræða tjón af völdum leka í útvegg baðherbergis viðkomandi íbúðareiganda, sem reyndist vera frá stofnlögnum. Náði tjónið einnig til íbúða fyrir ofan hann.
Að loknum viðgerðum, sem voru umfangsmiklar, ákvað stjórn húsfélagsins að skipta viðgerðarkostnaðinum þannig að niðurrif og endurnýjun lagna skyldi falla undir sameign og greiðast jafnt af öllum. Hins vegar skyldi uppbygging á vegg í baðherbergjum viðkomandi íbúða, þar á meðal hjá eiganda íbúðarinnar á 1. hæð, teljast að hálfu leyti kostnaður vegna sameignar og að hálfu leyti séreignarkostnaður, rétt eins og gluggar, og kostnaðargreiðslur vera í samræmi við það. Þessu var eigandi umræddrar íbúðar ósammála og vísaði ágreiningnum til kærunefndarinnar.
Óumdeilt að kostnaður vegna lagna er sameiginlegur
Í úrskurði sínum áréttar kærunefndin m.a. að óumdeilt sé að kostnaður vegna lagna sé sameiginlegur og því skuli húsfélagið greiða kostnað við að koma baðherbergi íbúðareigandans í sama horf og það var fyrir viðgerðir á sameiginlegri lögn, eins og fram kemur i forsendum úrskurðarins:
„Í 5. mgr. 26. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, segir að bili lagnir, sem liggja um séreignarhæuta, sé eigandi hans skyldugur til að veita aðgang að séreign sinni og leyfa nauðsynlegar viðgerðir. Gildi það bæði um sameiginlegar lagnir og sérlagnir annarra. Skuli eiganda tilkynnt um viðgerðir með hæfilegum fyrirvara og skuli þær framkvæmdar með hæfilegum hraða og lokið svo fljótt sem auðið sé. Skuli allri séreigninni komið í samt horf og áður og eiganda að kostnaðarlausu.
Ljóst er samkvæmt gögnum málsins að mati kærunefndar að gera þurfti við sameiginlega lögn vegna leka og til þess að það væri mögulegt þurfti að rífa niður vegg í baðherbergi álitsbeiðanda. Vegna þessa varð tjón í baðherberginu þar sem til að mynda þurfti að fjarlægja gólfefni og veggklæðningu. Kærunefnd telur að gagnaðila beri að greiða kostnað við að koma baðherberginu í samt horf og áður álitsbeiðanda að kostnaðarlausu, sbr. framangreind 5. mgr. 26. gr. Í þessu tilliti telur kærunefnd engu breyta um skyldu gagnaðila til að koma baðherberginu í samt horf að þær flísar sem hafi verið á baðherberginu séu ekki lengur fáanlegar.
Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið telur kærunefnd að um sé að ræða sameiginlegan kostnað og fellst því á kröfu álitsbeiðanda.