Ný könnun Gallup um eldvarnir á heimilum sýnir að alltof mörg heimili eru vanbúin nauðsynlegum eldvarnarbúnaði og þar með berskjölduð fyrir eldsvoðum. Þetta á til dæmis við um mörg heimili í höfuðborginni, heimili ungs fólks og íbúðir í leiguhúsnæði. Það er brýnna en nokkru sinni að hvetja fólk til að efla eldvarnir heimilisins, ekki síst í ljósi þess að það sem af er ári hafa fleiri látist í eldsvoðum hér á landi en dæmi eru um í áratugi, langt umfram það sem gerist í meðalári.
„Veirufaraldurinn gerir okkur vissulega erfitt fyrir að þessu sinni en við teljum að fræðsla um eldvarnir eigi erindi við almenning sem aldrei fyrr,“ segir Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, í tilefni af Eldvarnaátaki landssambandsins sem fer fram um allt land á næstu vikum.
Áhersla á að heimili séu búin eldvarnabúnaði
Slökkviliðin beina fræðslu um eldvarnir að nemendum í 3. bekk grunnskóla og fjölskyldum þeirra. Lögð er áhersla á að heimili séu búin eldvarnabúnaði á borð við reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi:
- Best er að hafa reykskynjara í öllum rýmum.
- Slökkvitæki á að vera við helstu flóttaleið.
- Eldvarnateppi á að vera á sýnilegum stað í eldhúsi.
- Tryggja þarf öllum á heimilinu að minnsta kosti tvær flóttaleiðir.
- Allir þekki neyðarnúmerið, 112, líka börnin.
Eldvarnir í fjölbýlishúsum lakari en almennt gerist
Samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Eldvarnabandalagið í haust eru heimilin í landinu mjög misjafnlega vel varin gagnvart eldsvoðum. Almennt sýna kannanir sem Gallup hefur gert fyrir Eldvarnabandalagið og LSS að heimilin efla eldvarnir jafnt og þétt. Frá þessu eru þó töluverð frávik. Könnun Gallup sýnir til dæmis að eldvarnir á heimilum í Reykjavík eru mun lakari en á heimilum utan höfuðborgarsvæðisins. Og fleiri hópar þurfa að huga betur að eldvörnum heimilisins:
- Fólk á aldrinum 25-34 ára er mun ólíklegra en aðrir til að hafa eldvarnateppi og slökkvitæki á heimilinu. Eldvarnateppi eru að meðaltali á 64,3 prósent heimila en aðeins hjá 48 prósent í umræddum aldurshópi.
- Könnunin leiðir í ljós að eldvarnir í fjölbýlishúsum eru lakari en almennt gerist og þá sérstaklega í stærri fjölbýlishúsum.
- Íbúar í leiguhúsnæði eru sem fyrr mun verr búnir undir eldsvoða en aðrir. Könnun Gallup leiðir í ljós að í 45 prósent íbúða í leiguhúsnæði er enginn eða aðeins einn reykskynjari. Sambærilegt hlutfall á landsvísu er 28 prósent.