Reykjavíkurborg ætlar á næstu þremur árum að setja upp 60 hleðslustöðvar í samstarfi við OR á borgarlandi, eða að jafnaði 20 stöðvar á ári. Þessum stöðvum er fyrst og fremst ætlað að leysa hleðsluvanda íbúa/eigenda í eldri fjölbýlishúsum í borginni, í húsum sem standa á bílastæðalausum leigulóðum og hafa bara aðgang að bílastæðum sem eru á borgarlandi.
Þetta kom fram í svari borgarinnar við fyrirspurn sem Eignaumsjón sendi vegna þessara hleðsluvandræða íbúa í bílastæðalausum fjölbýlishúsum. Kom þar jafnframt fram að borgin hefði auglýst nýlega eftir tillögum frá íbúum um hvar skuli staðsetja slíkar hleðslustöðvar. Áhugasamir geta nú sent inn tillögur um staðsetningu á vef borgarinnar; www.reykjavik.is/hledsla
Ánægjulegt að borgin grípi til aðgerða
„Það er mjög ánægjulegt að borgin skuli vera að grípa til aðgerða í þessum efnum en tíminn á eftir að leiða í ljós hvort þessi áform duga til að mæta ört vaxandi þörf fyrir aðgang að hleðslu fyrir rafbíla,“ segir Daníel Árnason framkvæmdastjóri og bætir við að Eignaumsjón, sem er leiðandi í rekstri húsfélaga á Íslandi, hafi á undanförnum mánuðum fengið fjölda fyrirspurna frá eigendum og íbúum í húsfélögum sem eru í þeirri stöðu að hafa ekki tök á að koma upp rafhleðslu á sinni lóð.
„Í þessari stöðu eru t.d. mörg fjöleignarhús við Kleppsveg og víða annars staðar, þar sem bílastæði eru á borgarlandi, utan lóðar viðkomandi húss,“ segir Daníel. Hann bendir jafnframt á að ef íbúar vilji óska eftir að stækka lóð húsfélagsins, til að hafa pláss til að koma upp eigin hleðslustöðvum, geti Eignaumsjón tekið að sér, ef samþykki húsfundar liggur fyrir, að senda fullbúið erindi þar um til skipulagsfulltrúa.
Hér má lesa nánar um þjónustu Eignaumsjónar fyrir húsfélög vegna hleðslu rafbíla.