Í nýlega birtu áliti Kærunefndar fjöleignarhúsamála (nr. 7/2009) kemur skýlaust fram hversu rík ábyrgð húsfélaga er á viðhaldi ytra byrðis fjöleignarhúsa.
Í málinu sem um ræðir er deilt um hvort eigandi séreignar eða húsfélagið beri ábyrgð á skemmdum vegna leka utanhúss, skemmda sem stöfuðu af leka milli glers og gluggalista og komu svo fram á næstu hæð fyrir neðan.
Húsfélagið taldi ábyrgðina liggja hjá séreigninni en kærunefnd komst að þeirri niðurstöðu að húsfélagið bæri ábyrgðina og skipta skyldi kostnaði samkvæmt því.
Með hliðsjón af þessari niðurstöðu kærunefndarinnar er rétt að beina því til húsfélaga að bæta eftirlit með ástandi ytra byrðis húsanna og draga viðhald alls ekki á langinn.
Frasinn um ”að betra sé að mála einu sinni of oft frekar en einu sinni of sjaldan” á vel við, þar sem vanræksla á þessu sviði getur valdið stighækkandi kostnaði.
Sjá einnig slóð á álit kærunefndarinnar:http://www.rettarheimild.is/Felagsmala/KaerunefndFjoleignarhusamala/2009/05/19/nr/2963