Okkar þjónusta er brú milli byggingaraðila og kaupenda nýrra eigna
Eignaumsjón er leiðandi í þjónustu við eigendur fasteigna og annast rekstur sameigna fjölda húsfélaga um íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Á undanförnum misserum hefur stofnun slíkra félaga verið í sívaxandi mæli fyrir byggingaraðila, sem spara sér þannig bæði kostnað, fyrirhöfn og dýrmætan tíma sem annars færi í rekstur og daglega umhirðu sameignar nýbyggingarinnar.
„Ég hef leyft mér að kalla þessa þjónustu okkar „brú“ á milli byggingaraðila og seljenda annars vegar og kaupenda nýrra eigna hins vegar,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar og bætir við að enn sé allt of algengt að byggingaraðili komi húsfélagi ekki á fót fyrr en búið er að selja þorra eigna í viðkomandi byggingu. Hann bendir einnig á að í nýjum fjölbýlishúsum standi menn líka frammi fyrir því að eigendur hafi ekki myndað tengsl og oftar en ekki átti fólk sig ekki á því hvar ábyrgðin liggur eða hver næstu skref eigi að vera við stofnun húsfélags og rekstur sameignar.
Sparar byggingaraðilum bæði fé, tíma og fyrirhöfn
„Byggingaraðilinn er því oft flæktur áfram í kostnað og daglega umhirðu sameignar sem hann á að vera laus við og þá höfum við í vaxandi mæli komið inn í myndina og stofnað húsfélög fyrir byggingaraðila og aðstoðað þá með ýmsum hætti.“ Sem dæmi um byggingaraðila sem hafa þegar nýtt sér þjónustu Eignaumsjónar nefnir Daníel m.a. ÞG Verktaka, Byggingarfélagið Skugga, Þingvang, BYGG, ÁF hús og Eykt.
„Okkar markmið er að einfalda þetta ferli eins og kostur er, ásamt því að spara byggingaraðilum kostnað, fyrirhöfn og tíma sem óklárir hlutir hafa í för með sér. Bæði umsagnir viðskiptavina og reynsla okkar sýna líka svart á hvítu að með tímanlegri stofnun og „innrömmun“ húsfélags, í samstarfi við okkur hjá Eignaumsjón, fer reksturinn hnökralaust af stað, án kostnaðarauka fyrir byggingaraðila,“ segir Daníel Árnason framkvæmdastjóri.