Bjóða húsfélögum ráðgjöf um framtíðarlausnir fyrir hleðslu rafbíla
Eignaumsjón býður nú húsfélögum og rekstrarfélögum atvinnuhúsnæðis upp á hlutlausa og faglega úttekt á hleðslufyrirkomulagi rafbíla ásamt ráðgjöf um bestu framtíðarlausnir varðandi uppsetningu hleðslustöðva rafbíla, með hagkvæmni og einfaldleika að leiðarljósi.
Útfærsla á hleðslu rafbíla í fjölbýlishúsum var einfalt viðfangsefni meðan fáir rafbílar voru í umferð og unnt var að leysa málin þannig að dugði um hríð. Eftir að stjórnvöld breyttu fjöleignarhúsalögum í maí 2020, sem skyldaði húsfélög til að bregðast við óskum um að koma upp rafhleðslustöðvum, er ljóst að huga þarf betur að heildarfyrirkomulagi þessara mála með áherslu á framtíðarlausnir og réttláta skiptingu kostnaðar milli húsfélaga og einstakra notenda.
Áform stjórnvalda um að hætta innflutningi árið 2030 á fólksbifreiðum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og ný spá Eignaumsjónar um að 65% allra fólksbíla hérlendis árið 2036 verði raf- og tengiltvinnbílar, undirstrika enn frekar að tímabært er fyrir húsfélög að huga að framtíðarlausnum í þessum efnum.
Bílastuð 0 – úttektarskýrsla og framkvæmdaáætlun
„Segja má að húsfélög horfi fram á að reka lítið orkusölufyrirtæki innan húsfélagsins. Þetta er flóknara en virðist við fyrstu sýn. Til að hjálpa stjórnum húsfélaga að greina bestu rafbílahleðslukosti fyrir sitt félag bjóðum við öllum húsfélögum sem þess óska, hvort sem þau eru í þjónustu hjá okkur eða ekki, upp á hlutlausa og faglega sérfræðiúttekt og ráðgjöf, sem fengið hefur vinnuheitið Bílastuð 0, til hjálpa stjórnum húsfélaga að greina bestu rafbílahleðslukosti og framtíðarlausnir fyrir sitt félag,“ segir Daníel Árnason framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.
Úttektarskýrslan, sem verður eign viðkomandi húsfélags, er unnin af rafmagns- og byggingarverkfræðingum Eignaumsjónar og Tæknivits. Skýrslan uppfyllir lagalega skyldu um úttekt á áætlaðri framtíðarþörf rafbíla, eins og fjöleignarhúsalögin mæla fyrir um. Verð úttektarinnar ræðst af fjölda eigna innan viðkomandi húsfélags en í henni er m.a. lagt mat á:
- Forsendur hleðslu rafbíla hjá viðkomandi húsfélagi, s.s. þörf á stærri heimtaug, staðsetningu hleðslustöðva og val á hentugri hleðslulausn.
- Fyrirkomulag hleðslu, þ. á m. forhönnun á völdu kerfi, drög að raflagnauppdrætti, mat á tæknilegri getu kerfis, virkni kerfis til framtíðar (álagsstýring o.fl.), sjálfvirkni og áreiðanleiki.
- Kostnaðarmat, þ.e. drög að kostnaðaráætlun og forgangsröðun áfanga, fyrirkomulag umsýslu, tillaga að sanngjörnu greiðslu- og innheimtukerfi sem tryggir að sá borgar sem notar.
Samstarfsverkefni Eignaumsjónar og Tæknivits
Eignaumsjón hf. býr að 20 ára þekkingu og reynslu í rekstri hús- og rekstrarfélaga fasteigna í takt við ákvæði fjöleignarhúsalaganna. Félagið, sem er brautryðjandi á þessum vettvangi, annast rekstur um 700 hús- og rekstrarfélaga með hátt í 15.000 íbúðum/eignarhlutum.
Tæknivit ehf. er með víðtæka reynslu í tæknilausnum, s.s. sjálfvirkni í skráningu, gjaldtöku, aðgangsstýringu og afgreiðslumálum.