Tæknisviði Eignaumsjónar vex fiskur um hrygg
Nýlega var gengið frá ráðningu tveggja nýrra sérfræðinga til Eignaumsjónar og starfa nú fjórir tölvunarfræðingar hjá tæknisviði félagsins, sem komið var á laggirnar í fyrra í tengslum við skiplagsbreytingar. Með þessum ráðningum er verið að efla enn frekar tæknigetu fyrirtækisins í öryggismálum og rafrænum tæknilausnum. Tæknisviðinu er ætlað að leiða stafræna vegferð Eignaumsjónar, sem hefur það að markmiði að gera bæði starfsfólki og viðskiptavinum kleift að vinna rafrænt með öll gögn sem tengjast þjónustu og rekstri fyrirtækisins.
Sigurður Gauti Hauksson, sem hefur unnið lengi að tölvu- og tæknimálum fyrir Eignaumsjón, hefur nú verið ráðinn sviðsstjóri tæknisviðs Eignaumsjónar. Með honum kemur líka til starfa Snæbjörn Halldór Snæbjörnsson, sem mun sinna hugbúnaðarþróun. Aðrir starfsmenn tæknisviðsins eru Emil Hilmarsson, öryggis- og upplýsingatæknistjóri og Sævar Þór Sigfússon, sem annast bæði hugbúnaðargerð og tækniþjónustu.
Úr pappír í starfrænt umhverfi
„Eignaumsjón hefur unnið markvisst að því í allmörg ár að færa starfsemi sína yfir í starfrænt umhverfi,“ segir sviðsstjóri tæknisviðsins, Sigurður Gauti Hauksson. Hann bendir á að þörfin sé brýn þar sem félagið er með yfir 900 hús- og rekstrarfélög í þjónustu, með um 20 þúsund fasteignum/einingum.
„Það gefur auga leið að mikið hagræði er að geta sent yfir 20 þúsund kröfur út rafrænt í hverjum mánuði ásamt um sjöþúsund gjaldareikningum í stað þess að senda þetta allt út á pappír, með tilheyrandi prent- og sendingarkostnaði.“
Öryggi gagna, rekstur og þróun netkerfa
Efling tæknisviðs Eignaumsjónar er rökrétt skref á þeirri braut sem fyrirtækið hefur verið að feta í rekstri upplýsingakerfa sinna. Meginverkefni tæknisviðsins er annars vegar að tryggja öryggi allra gagna og hins vegar að þróa áfram netkerfi fyrirtækisins og sjá til þess að rekstur þeirra gangi snurðulaust fyrir sig.
„Svo til öll starfsemi okkar byggist orðið á tölvutækni og stefnan til framtíðar er að vinna allt rafrænt,“ segir Sigurður Gauti. Hann nefnir rafræna fundi, rafrænar undirskriftir og rafrænt greiðsluuppgjör sem dæmi um áhugaverða áfanga sem Eignaumsjón hefur náð á undanförnum misserum og árum , að ógleymdri Húsbókinni, sem tekin var í gagnið árið 2020 á 20 ára afmælisári fyrirtækisins.
„Í upphafi var töluvert mikið lagt í Húsbókina, sem er rafræn upplýsingagátt fyrir viðskiptavini, en við erum stöðugt að vinna að uppfærslum og viðbótum til að bæta enn frekar upplifun viðskiptavina okkar,“ segir sviðsstjóri tæknisviðsins og klikkir út með að næsta stóra skrefið þar sé að tryggja alrafræna afhendingu allra gagna yfir í Húsbókina.