Lagabreytingar um rafræna fundi húsfélaga og fleira í kynningu á samráðsgátt stjórnvalda
Félagsmálaráðuneytið kynnir nú til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, á samráðsgátt stjórnvalda. Frumvarpið felur í sér nokkrar breytingar á fjöleignarhúsalögum sem rétt þykir að gera af fenginni reynslu undanfarinna ára og er m.a. stefnt að því að færa í lögin beina heimild til að halda rafræna húsfundi, m.a. annars vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu og óvissu sem ríkir vegna kórónaveirufaraldursins.
Veirufaraldurinn og samkomutakmarkanir vegna hans hafa haft bein áhrif á eigendur fjöleignarhúsa, m.a. vegna húsfunda og samskipta milli félagsmanna innan húsfélaga.
Á að heimila rafræna húsfundi og notkun rafrænna skjala
Með frumvarpinu er því lagt til að laga tiltekin ákvæði laganna að tækniframförum í rafrænum samskiptum og færa í lögin beina heimild til að halda rafræna húsfundi og nota rafræn skjöl og tölvupóst í samskiptum milli húsfélags og félagsmanna.
Þá er, í ljósi breyttra skipulagsáherslna og þar með ört vaxandi mannvirkjagerðar þar sem byggt er blandað húsnæði, nauðsynlegt að skapa eigendum húsnæðis í blönduðum húsum aukið svigrúm til þess að víkja frá ákvæðum laganna með það að markmiði að bæta nýtingu og einfalda ákvarðanatöku vegna aðlögunar húsnæðisins að þörfum eigenda blandaðs húsnæðis. Því er lagt til í frumvarpinu að eigendum húsnæðis í blönduðum húsum verði heimilað að víkja frá ákvæðum laganna með setningu sérstakra húsfélagssamþykkta fyrir blönduð hús.
Jafnframt er lögð til breyting á ákvæði laganna um húsfélagsdeildir þannig að heimild eigenda fjöleignarhúsa til að mynda húsfélagsdeild sé rýmkuð og nái til fleiri tilvika, s.s. að eigendum verði heimilt að semja um skiptingu á viðhaldi þannig að hver húsfélagsdeild annist framkvæmdir utanhúss á viðkomandi húshluta auk þess sem eigendum bílageymsla verði heimilt að stofna sérstaka húsfélagsdeild um bílageymsluna með samningi, svo unnt verði að reka þær sem sjálfstæðar einingar og að meginstefnu óháð ákvörðunarvaldi annarra eigenda fjöleignarhúss.
Umsagnafrestur til 15. febrúar
Umsagnarfrestur um frumvarpsdrögin er til 15. febrúar næstkomandi. Umsagnirnar verða birtar jafnóðum og þær berast í samráðsgáttinni en niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem berast.
Sjá nánar hér.