Sep 30, 2024 | Fréttir
Verð á heitu vatni til húshitunar hefur hækkað um 29% á höfuðborgarsvæðinu síðustu þrjú árin samkvæmt kostnaðartölum sem Eignaumsjón hefur tekið saman úr rekstri húsfélaga í þjónustu hjá félaginu. Til mikils er því að vinna fyrir eigendur í fjöleignarhúsum að vel sé fylgst með ástandi hitagrinda og snjóbræðslukerfa. Það tryggir skilvirka orkunotkun og lægri orkukostnað.
Frá ársbyrjun 2022 til loka júlí 2024 hefur verð á rúmmetra af heitu vatni – með orkuskatti og virðisaukaskatti – hækkað úr rúmlega 159 krónum í ríflega 205 krónur, sem er nærri 29% hækkun.
Bakreikningur upp á rúma milljón
„Þessi verðhækkun á heitavatninu er að auka verulega kostnað húsfélaga þegar bilanir verða í hitakerfum. Til dæmis fékk eitt húsfélag í 90 íbúða húsi bakreikning upp á rúmlega eina milljón króna í byrjun ársins, eftir að hitakerfi í einum af sex stigagöngum bilaði,“ segir Guðmundur Orri Arnarson hjá Eignaumsjón. Húsfélagið í ofangreindu dæmi er í Húsumsjón, sérþjónustu hjá Eignaumsjón, sem felur m.a. í sér reglulegt eftirlit með öllum hitakerfum og öðrum tækjabúnaði í sameign og var strax farið í umfangsmikla bilanaleit. Í framhaldinu var öll hitagrindin í umræddum stigagangi tekin í gegn og komst þá heitavatnsnotkunin aftur í eðlilegt horf.
Hitavaktin – mánaðarlegt eftirlit með hita- og snjóbræðslukerfum
Vegna mikillar fjölgunar fyrirspurna um aðstoð við að meta ástand hitagrinda og snjóbræðslukerfa býður Eignaumsjón nú húsfélögum – hvort sem þau eru í þjónustu hjá Eignaumsjón eða ekki – upp á mánaðarlega skoðun í tæknirýmum húsa til að tryggja að þessi kerfi starfi á fullum afköstum og án vandamála.
„Það er orðið dýrt að sóa heitu vatni og sjálfbær hitastýring og skilvirkni í sameign húsfélaga skiptir alla eigendur máli. Reglubundið eftirlit sparar heitt vatn, dregur úr sóun og lækkar rekstrarkostnað húsfélagsins,“ segir Guðmundur Orri og hvetur öll sem eru áhugasöm um þessa nýju áskriftarþjónustu til að hafa samband á netfanginu thjonusta@eignaumsjon.is, í netspjall, eða með því að hringja í síma 585-4800.
Sep 26, 2024 | Fréttir
Hulda Sjöfn Kristinsdóttir, Sigurður Lárus Fossberg og Valgerður Ingólfsdóttir komu til starfa hjá Eignaumsjónar fyrr á þessu ári. Hulda Sjöfn er innheimtufulltrúi á fjármálasviði, Sigurður sinnir húsumsjón, ráðgjöf um brunavarnir og fleiri tilfallandi verkefnum á þjónustusviði og Valgerður er bókhaldsfulltrúi á fjármálasviði Eignaumsjónar.
Valgerður er með B.S. próf í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og starfaði sem bókari hjá Truenorth, áður en hún kom til starfa hjá Eignaumsjón. Þar áður vann hún m.a. á fjármálasviði 66°Norður við bókhald, uppgjör og afstemmingar. Valgerður hefur einnig unnið við sölustörf, sem flugliði hjá Icelandair og leiðbeinandi við leikskóla.
Áður en Sigurður hóf störf hjá Eignaumsjón var hann slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður í 35 ár; fyrst hjá Slökkviliði Akureyrar og síðast hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Samhliða slökkviliðsstarfinu hefur Sigurður sinnt ýmiskonar iðnaðarvinnu, akstri og vélavinnu. Hann er með sveinsbréf í málaraiðn og slökkviliðs- og sjúkraflutningsmenntun frá Brunamálaskóla Íslands og Sjúkraflutningaskóla Íslands ásamt viðbótarmenntun í stjórnun og sjúkraflutningum frá Svíþjóð og Bandaríkjunum. Sigurður sat í stjórn Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og í skóla- og fagráði Brunamálaskólans, þar sem hann hefur einnig sinnt kennslu.
Hulda var gjaldkeri hjá Bílaumboðinu Heklu í sex ár, áður en hún kom til starfa hjá Eignaumsjón. Hún hefur einnig unnið sem þjónustu- og innheimtufulltrúi hjá Öryggismiðstöð Íslands og þar áður Tæknivali. Hulda er með stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Hún lærði einnig til sjúkraliða við FB og starfaði við það í rúman áratug á Sjúkrahúsi Reykjavíkur/Landspítalanum Háskólasjúkrahúsi. Hún hefur einnig m.a. lagt stund á tölvunám við Iðnskólann í Reykjavík og tækniteiknun, sem og verkefnastjórn/leiðtogaþjálfun hjá Endurmenntun HÍ.
Um Eignaumsjón
Eignaumsjón býr að 24 ára þekkingu og reynslu í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsnæðis. Félagið þjónar í dag 1.200 hús- og rekstrarfélögum með hátt í 25.000 íbúðum/eignum. Áhersla er lögð á hlutlausa nálgun, öryggi, gæðamál og skýra verkferla til að gera rekstur fasteigna markvissari og ódýrari, auka upplýsingaflæði til eigenda og auðvelda störf stjórna.
Sep 16, 2024 | Fréttir, Greinar
Fastur liður hjá húsfélögum á haustin er að huga að frágangi á lausamunum, s.s. útihúsgögnum, grillum og stórum leikföngum eins og trampolínum.
Húsfélög sem eru ekki þegar búin að ganga frá útihúsgögnum, grillum og leiktækjum hjá sér eru hvött til að drífa í því sem allra fyrst, áður en haustlægðirnar mæta fyrir alvöru, með tilheyrandi roki og vatnsveðrum.
Þakrennur og niðurföll
Gróður er enn í töluverðum blóma en ef að líkum lætur styttist í að tré og runnar felli lauf. Því viljum við líka minna stjórnir húsfélaga á að huga að eftirliti og hreinsun á þakrennum og niðurföllum, svo tryggt sé að laufblöð, drulla eða annað sé ekki að valda stíflum eða leka.
Hálkuvarnir og snjómokstur
Við viljum líka minna formenn og stjórnir húsfélaga á að huga tímanlega að samningum um hálkuvarnir og snjómokstur, ef slíkir samningar eru ekki þegar fyrirliggjandi við þjónustufyrirtæki, þó við vonum að sjálfsögðu að enn sé langt þar til Vetur konungur fari að sína sig. Áratuga reynsla segir okkur að allt of margir vakna upp við vondan draum þegar byrjar að snjóa og þá næst ekki í neina verktaka til að hreinsa bílaplön og innkeyrslur!
Getum við aðstoðað?
Eignaumsjón getur lagt húsfélögum lið við að leita að iðnaðarmönnum eða þjónustuaðilum. Nánari upplýsingar um þá þjónustu er hægt að fá hjá þjónustuverinu okkar með því að senda tölvupóst á netfangið thjonusta@eignaumsjon.is, hringja í síma 585-4800 á skrifstofutíma eða vera í sambandi í netspjalli á www.eignaumsjon.is.
Jun 27, 2024 | Fréttir
Sigurborg Sólveig Guðmundsdóttir hefur verið ráðin aðalbókari hjá Eignaumsjón og hefur hún þegar tekið til starfa hjá félaginu.
Sigurborg er viðskiptafræðingur að mennt, með Cand. Oecon próf frá Háskóla Íslands með áherslu á reikningsskil og endurskoðun. Hún hefur einnig lokið námi sem leikskólakennari frá Fósturskóla Íslands og er með stúdentspróf af hagfræðibraut frá Verzlunarskóla Íslands. Sigurborg var fjármálastjóri hjá Hreinsitækni ehf. í fimm ár, áður en hún kom til starfa hjá Eignaumsjón. Þar áður starfaði hún m.a. á Endurskoðunarsviði Deloitte í níu ár, fyrst og fremst við gerð og endurskoðun ársreikninga fyrirtækja.
Sem aðalbókari ber Sigurborg ábyrgð á gæðum bókhalds og framkvæmd rekstraruppgjöra, ásamt gerð og yfirferð ársreikninga viðskiptavina Eignaumsjónar. Hún ber enn fremur ábyrgð á skipulagningu og vinnu teyma á fjármálasviði, annast eftirfylgni með árangri og útgáfu reikninga fyrir Eignaumsjón. Aðalbókari tekur einnig þátt í þróun upplýsingakerfa fyrirtækisins og verkferla og er m.a. í mikilvægu hlutverki við þróun og innleiðingu á nýju bókhalds- og uppgjörskerfi Eignaumsjónar.
Um Eignaumsjón
Eignaumsjón býr að 23 ára þekkingu og reynslu í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög atvinnuhúsnæðis. Félagið þjónar um 900 hús- og rekstrarfélögum með yfir 20.000 íbúðum/eignum og starfsmenn eru 42 talsins. Áhersla er lögð á hlutlausa nálgun, öryggi, gæðamál og skýra verkferla með það að markmiði að gera rekstur fasteigna markvissari og ódýrari, auka upplýsingaflæði til eigenda og auðvelda störf stjórna.
Jun 26, 2024 | Fréttir
Samkomulag hefur náðst um að Eignaumsjón hf. kaupi Fjöleignir ehf., húsfélagaþjónustu KRST lögmanna ehf. og taki við allri þjónustu við viðskiptavini í samræmi við gildandi þjónustusamninga.
Eignaumsjón tekur formlega við rekstri Fjöleigna í byrjun júlí 2024. Starfsfólk Fjöleigna kemur þá til starfa á skrifstofu Eignaumsjónar að Suðurlandsbraut 30, sem tryggir að hús- og rekstrarfélög frá Fjöleignum njóta eftir sem áður þjónustu starfsfólks sem þekkir vel til mála.
Aukin þörf fyrir sérhæfðari þjónustu
„Það fellur ekki að kjarnastarfsemi KRST lögmanna að eiga og reka húsfélagaþjónustu. Miklar breytingar eru að eiga sér stað á þessum markaði og rekstur fjöleignarhúsa alltaf að verða flóknari og umfangsmeiri. Aukin þörf er fyrir sérhæfingu sem stærri þjónustuaðili á betra með að veita. Það er góð lausn að okkar mati að Eignaumsjón, sem er öflugur aðili á þessum markaði, taki við keflinu til að tryggja að vel verði hugsað um viðskiptavini Fjöleigna og hagsmuni þeirra,“ segir Jón Bjarni Kristjánsson, framkvæmdastjóri KRST lögmanna.
Góð þjónusta og skilvirkar tæknilausnir
„Við hlökkum til að takast á við þessa áskorun og fögnum nýju starfsfólki sem kemur til liðs við okkur. Eignaumsjón hefur verið leiðandi í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög fjöleignarhúsa, allt frá því að félagið tók til starfa árið 2000. Við ætlum okkur að þróa áfram þá þjónustu til að mæta enn betur sívaxandi þörfum eigenda fasteigna með öruggri og góðri þjónustu,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.