Eitt stærsta húsfélag landsins hefur verið stofnað af Eignaumsjón hf. fyrir framkvæmdafélagið Hlíðarfót ehf., sem er að byggja 191 íbúð í 11 samtengdum byggingum á F reit á Hlíðarenda undir merkinu 102reykjavik.is. Tilgangur húsfélagsins er að annast rekstur sameignar fjöleignarhússins á F reitnum og verður það rekið í deildaskiptu heildarfélagi sem nær til allra 10 matshluta hússins, þar á meðal stigaganga, ytra byrðis hússins, sameiginlegrar bílageymslu og lóðar.
Byggt er utan um skjólgóðan sameiginlegan inngarð á F reitnum og undir honum er tveggja hæða bílakjallari. Framkvæmdir hófust í júní 2018 og miðar vel. Sala íbúða er einnig hafin og liggja þegar fyrir kauptilboð í tæplega helming þeirra 120 eigna sem komnar eru í sölu. Afhending íbúða hefst á fyrstu mánuðum ársins 2020. Síðasti áfanginn fer í sölu vorið 2020 en ætlunin er að framkvæmdum verið lokið fyrir áramót 2020/2021.
Húsumsjón og hefðbundin húsfélagaþjónusta
Þjónusta Eignaumsjónar við húsfélagið á F reit, sem fengið hefur nafnið Haukahlíð 1, felur í sér hefðbundna fjármála-, funda- og rekstrarþjónustu ásamt húsumsjón, sem er nýleg viðbótarþjónusta hjá Eignaumsjón fyrir rekstrar- og húsfélög og felst í reglubundnu eftirliti með umhirðu og ástandi sameignar – innanhúss sem utan.
„Við teljum það mikinn kost að selja og afhenda nýjum eigendum íbúðirnar með húsfélagsmálin í föstum skorðum frá byrjun. Með samstarfinu við Eignaumsjón hefur húsfélagið formlega starfsemi, eftir því sem matshlutar klárast, í takt við afhendingu íbúða til nýrra eigenda. Eigendur ganga þá strax að vísu fyrirkomulagi varðandi sameign hússins þar sem starfsemi húsfélagsins er í föstum skorðum og öruggum rekstri,“ segir Sigurður Lárus Hólm, starfandi formaður húsfélagsins og framkvæmdastjóri Hlíðafótar ehf. sem er í forsvari fyrir framkvæmdum á F reitnum og 102reykjavik.is.
Eitt deildaskipt húsfélag fyrir alla matshluta
Húsfélagið, sem nær til sameignar allra 191 íbúða hússins, s.s. stigaganga, ytra byrðis, sameiginlegrar bílageymslu og inngarðsins, verður rekið í einu deildaskiptu heildarfélagi.
„Með þessu fyrirkomulagi næst mun skilvirkari og betri heildarmynd á þjónustuna sem verður jafnframt mun hagkvæmari fyrir húsfélagið. Það er að okkar mati allra hagur að ná vel utan um þessi stóru fjöleignarhús strax í byrjun með því að ganga frá samþykktum húsfélags, skilgreina rekstrar- og þjónustuskipulagið og setja húsreglur,“ segir Páll Þór Ármann, forstöðumaður þjónustusviðs Eignaumsjónar. Með því að koma á þjónustusamningi strax í byrjun er allri óvissu eytt og komið á samskiptum og samstarfi eigenda sem miði að því að byggja upp samfélag í sátt í húsinu – til að ná utan um alla þætti sem skipta máli varðandi starfsemi húsfélagsins og rekstur sameignarinnar, lögum samkvæmt.