Það er nokkuð algengt að íbúða- og atvinnuhúsnæði er í sömu byggingu og þar af leiðandi í sama húsfélagi.Oftast ganga þessar samvistir vel en þó kemur fyrir að íbúum þykir fyrirferð atvinnurekstursins meiri en efni standa til. Þá reynir oft á að aðilar komist að skynsamlegu samkomulagi og setji haldbærar húsreglur um hvernig umgengni skuli vera. Undanfarið hefur það færst í vöxt að eigendur atvinnuhúsnæðis vilja breyta atvinnurými í íbúða- eða gistirými. Kærunefnd húsamála hefur túlkað lögin um fjöleignarhús þannig að réttur til hagnýtingar eignar og breytinga innan séreignar í atvinnuhúsnæði sé ekki háður samþykki annarra eigenda eða húsfélags svo fremi að ekki sé verið að breyta yfir í íbúðarhúsnæði. Fer það reyndar eftir atvikum mála. Samkvæmt áliti nefndarinnar (nr. 92/2013) hafa íbúar ekki í ákvörðunarvald um hvort tannkæknastofum og fundarsal í húsinu var breytt í tónlistarskóla og samkomu- eða veitingasal. Álit þetta má finna á vef velferðarráðuneytisins:http://www.urskurdir.is/Felagsmala/K_husamala/nr/6941.