Í hópi viðskiptavina Eignaumsjónar hefur orðið vart við fjölgun innbrota í fjölbýlishús, aðallega þá í geymslur. Oftar en ekki má þó ætla að þessi innbrot séu að valda meira tjóni á eignum heldur en þjófurinn eða þjófarnir hafa upp úr krafsinu.
Svo virðist sem leiðir hinna óvelkomnu einstaklinga inn í húsin séu oft í gegnum bílageymslur þar sem þeir laumist jafnvel inn þegar íbúar eru að aka út. Einnig eiga íbúar það til að hleypa fólki inn í hús án þess að gæta að hver eða hverjir eru þar á ferðinni.
Íbúar hvattir til að vera á varðbergi
Það verður aldrei of oft brýnt fyrir íbúum að gæta þess að hleypa ekki ókunnum einstaklingum inn í sín hús. Gott væri að íbúar temdu sér þann hugsunarhátt að hver hurð í sameign sé hurð inn í þeirra eigin íbúð! Þá viljum við benda íbúum á að treysta ekki alfarið á að hurðapumpur loki dyrum. Veðuraðstæður geta valdið því að þær ráði ekki við hlutverk sitt og nái ekki að loka sem skildi.