Meðal umræðuefna á aðalfundum húsfélaganna í vetur voru gjarnan umræður um lóðir og umgengnina utanhúss. Víða var ákveðið að halda hreinsunardag fyrir viðkomandi fjölbýlishús á vordögum og gjarnan ákveðið að leggja viðbótarhúsgjald á þá sem ekki mæta til hans. Sitt sýnist hverjum um slíkt gjald. Slíkir dagar eru jákvæðir á allan hátt, ekki síst eru þeir vel fallnir til að efla samstöðu og auka jákvæð samskipti innan húsanna.
Gott er að flétta inn í slíka daga að bera á og lagfæra tréverk sem mikið mæðir á en alþekkt er að timbur þarf að mála eða bera á oftar en marga aðra fleti.
Það færist stöðugt í vöxt að að bjóða út umsjón með lóðinni, þe. áburð, garðslátt, beðahreinsun og trjáklippingar. Ef bjóða á út slíka þjónustu er gott að semja greinargóða lýsingu á því til hvers er ætlast, hvaða svæði, hvaða beð, hvaða grasblettir, hvaða gangstígar osfrv. Gott er að kynna slíkt á félagsfundi. Með slíkri lýsingu fást frekar samanburðarhæf tilboð og minni líkur eru á að ágreiningur rísi við verktaka eftirá.