Allt að 200 manns mega koma saman á húsfundum húsfélaga ef fundirnir uppfylla öll skilyrði reglugerðar sem tók gildi í dag um aðstöðu og sóttvarnir, s.s. grímuskyldu og fjarlægðamörk, sæti fyrir alla og skráningu þátttakenda. Þar með er ekkert lengur því til fyrirstöðu að fara að halda á ný aðalfundi stærri húsfélaga en samkomutakmarkanir vegna COVID-19 hafa sett þar strik í reikninginn frá því sl. vor. Ekki hefur heldur verið hægt að halda rafræna fundi þar sem fjöleignarhúsalögin heimila ekki slíkt, að minnsta kosti enn sem komið er.
Í kjölfar fyrirspurnar Eignaumsjónar í gær hefur heilbrigðisráðuneytið staðfest að húsfundir falli undir fjöldaákvæði nýsettrar reglugerðar sem miðast við 200 manns, þar sem uppfylla þarf öll eftirtalin skilyrði:
- Allir gestir séu sitjandi og ekki andspænis hver öðrum.
- Allir gestir séu skráðir, a.m.k. nafn og símanúmer.
- Allir gestir noti andlitsgrímu.
- Tryggt sé að fjarlægð milli ótengdra gesta sé a.m.k. 1 metri.
- Áfengisveitingar séu ekki heimilar.
- Komið verði eins og kostur er í veg fyrir frekari hópamyndun fyrir viðburð, í hléi og eftir viðburð.
Ef eitthvert ofangreindra skilyrða er ekki uppfyllt er leyfður hámarksfjöldi á viðburði 50 manns í hverju rými.
Þegar byrjað að boða fundi stærri félaga
„Við fögnum þessari niðurstöðu, enda aðalfundir hús- og rekstrarfélaga stór hluti af þjónustu okkar hjá Eignaumsjón,“ segir Daníel Árnason framkvæmdastjóri. „Við höfum þegar hafist handa við að boða fundi í stærri húsfélögum sem eru hjá okkur en aðalfundir minni húsfélaga hófust strax upp úr áramótum, í samræmi við gildandi sóttvarnarákvæði og höfum við þegar haldið hátt í tvöhundruð af á sjötta hundrað aðalfundum sem eru fram undan. Jafnframt erum við tilbúin að halda rafræna fundi, strax og lagabreytingar um það taka gildi.“
Lögum samkvæmt skal aðalfundur húsfélags haldinn ár hvert fyrir lok aprílmánaðar og þar skal tryggja að mál verði tekin fyrir og til lykta leidd. Fundur telst þó ekki ólögmætur ef hann er ekki haldinn innan þeirra tímamarka. Undantekning var gerð frá þessum tímaákvæðum vegna kórónaveirufaraldursins og m.a. heimilað að halda megi aðalfundi sem áttu að vera í fyrra samhliða aðalfundum í ár.