„Rafbílar og fjöleignarhús – er hleðslukerfi rafbíla enn hausverkur í húsfélaginu“ er yfirskrift hádegisfundar Eignaumsjónar á morgun, fimmtudaginn 9. febrúar 2023. Þar verður rætt um fyrirkomulag hleðslu rafbíla í fjöleignarhúsum, bæði gömlum og nýjum, en í sumar verða liðin þrjú ár frá því að lögum um fjöleignarhús var breytt til að liðka fyrir rafbílavæðingu.
Gestir fundarins verða Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasambands Íslands, og Leifur Eysteinsson, meðstjórnandi í bílageymslufélagi Álalindar 14-16. Tómas ræðir um hagsmuni rafbílaeigenda í fjöleignarhúsum og Leifur segir frá reynslu sinni við að koma upp rafhleðslukerfi á lóð og í bílageymslu síns húsfélags.
Einnig ætla starfsmenn Eignaumsjónar, Páll Þór Ármann og Bjarni G. Hjarðar, að ræða um hagsmuni og ábyrgð húsfélaga við uppsetningu á rafhleðslukerfum og hvernig Eignaumsjón leggur húsfélögum lið við að greiða úr þessum málum. Þar er í mörg horn að líta, s.s. varðandi lagalegar kröfur, tæknimál, rekstur og umsýslu og væntingar eigenda, hvort sem um er að ræða rafhleðslu í nýbyggingum eða eldri fjölbýlishúsum.
Til fundarins er boðið stjórnum og formönnum húsfélaga sem eru í þjónustu hjá Eignaumsjón. Fundurinn hefst kl. 12:10 í fundarsal félagsins að Suðurlandsbraut 30 og lýkur um kl. 13:00.
Fundinum verður einning streymt á heimasíðu Eignaumsjónar: www.eignaumsjon.is/bilastud/